Seðlabankinn færður frá forsætisráðuneytinu

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Efnahags- og viðskiptaráðuneyti tekur til starfa í dag á grunni viðskiptaráðuneytisins, þegar lög um breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands taka gildi. Í ráðuneytinu verður forræði efnahagsmála sem nú er bæði í forsætisráðuneyti og fjármálaráðuneyti.

Í því fellst að málefni Seðlabanka Íslands verða nú í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu og heyra þá Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands undir sama ráðuneyti. Starfsemi efnahagsskrifstofu forsætisráðuneytisins flyst í dag til efnahags- og viðskiptaráðuneytisins.

Þá flyst í dag hluti af efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins til efnahags- og viðskiptaráðuneytisins, en í fjármálaráðuneytinu verða áfram verkefni sem unnin hafa verið á efnahagsskrifstofu ráðuneytisins og tengjast fjárlagagerð og stjórn ríkisfjármála, svo sem tekjuáætlun fjárlaga og mat á tekjuáhrifum skattabreytinga.

Hagstofan flyst einnig frá forsætisráðuneyti

Málefni Hagstofu Íslands flytjast frá forsætisráðuneytinu til efnahags- og viðskiptaráðuneytisins í dag og við Hagstofu Íslands verður sett á fót sjálfstæð rannsóknareining sem fylgist með afkomu þjóðarbúsins, semur þjóðhagsspár og birtir opinberlega. Sú eining verður til með flutningi verkefna frá fjármálaráðuneyti til Hagstofunnar.

Málefni er varða bókhald, endurskoðendur og ársreikninga færast til efnahags- og viðskiptaráðuneytisins í dag, en þau verkefni tengjast mjög félagarétti sem nú þegar er á forræði viðskiptaráðuneytisins, að því er segir í tilkynningu.

Þá eru færð frá ráðuneytinu til utanríkisráðuneytisins verkefni sem tengjast umsýslu alþjóðlegra viðskiptasamninga og til dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins ýmis lög er varða verkefni á vegum Neytendastofu og talsmanns neytenda.

Gylfi Magnússon, ráðherra efnhags- og viðskipta
Gylfi Magnússon, ráðherra efnhags- og viðskipta Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert