Skammaður af ESB-sinnum

Eiríkur Bergmann Einarsson stjórnmálafræðingur.
Eiríkur Bergmann Einarsson stjórnmálafræðingur. mbl.is

„Ég var skammaður af Evrópusambandssinum fyrir að halda því fram að það væri glapræði að leggja inn umsókn án þess að hafa tryggt nauðsynlegt pólitískt bakland áður. Ég var sakaður um að mála skrattann á vegginn," segir Eiríkur Bergmann Einarsson Evrópufræðingur og höfundur nýrrar bókar um Evrópumál

„Ég var sakaður um að mála skrattann á vegginn og fyrir að vera með svartsýnisraus. Þetta væri að sjálfsögðu ekkert mál," segir Eiríkur Bergmann, höfundur bókarinnar, Frá Evróvisjón til evru, um Evrópusamrunann, sem kemur út í dag.

„Þetta er auðvitað miklu stærri ákvörðun því um leið og þú tekur ákvörðun um umsókn ertu búinn að segja við viðsemjendur þína að við séum á þessari leið. Ef við hins vegar hættum við í miðju ferlinu, eins og töluverðar líkur eru á, það þarf ekki annað en að skipta um ríkisstjórn, til þess að umsóknin sé dregin til baka, þá erum við kannski búin að eyðileggja stöðu okkar í EES-samstarfinu vegna þess að við uppfyllum ekki skilyrði samningsins.

Evrópusambandið hefur sagt að það vilji breyta EES í eins konar örríkjabandalag, sem myndi ekki þjóna hagsmunum okkar. Þannig að það er ýmislegt komið í gang sem gæti komið okkur í koll.

Með því að draga umsóknina til baka erum við endanlega búin að lýsa því yfir að við ætlum ekki að vera í Evrópusambandinu og þá erum við væntanlega krafin um að uppfylla EES-samninginn sem við gerum ekki eftir setningu neyðarlaganna síðasta haust. Það getur haft slæmar afleiðingar að klúðra þessu."

Umræðan á villigötum

– Því er stundum haldið fram að aðild að ESB snúist um fiskveiðimálin nær eingöngu. Telurðu að þessi umræða sé á villigötum?

„Já. Þetta er miklu stærra mál en af hefur verið látið. Það er hverjum einasta steini í samskiptum þess ríkis sem sækir um aðild við öll 27 aðildarríki sambandsins velt upp í þessu ferli, hverjum einasta. Þetta er ekkert einkamál Íslendinga hvort við verðum aðilar að Evrópusambandinu eða ekki eins og skilja hefur mátt á umræðunni.

Hún snýst um það hvort við viljum verða aðilar að þessu bandalagi eða ekki. Hún hefur aldrei snúist um hvort við fáum inngöngu í sambandið. Svo er önnur hlið á þessum peningi sem þyrfti að skoða líka. Við getum sótt um aðild en við getum ekki ákveðið að fá inngöngu. Það er í höndum annarra."

Tilraun til nýbreytni

Eiríkur rekur aðildarferlið í nýrri bók sinni sem hann segir tilraun til að fjalla um Evrópumál á læsilegan og auðlesinn hátt fyrir leikmenn.

Hann rekur þar Evrópusamrunann allt aftur til friðarsamninganna í Vestfalíu árið 1648 til sameiningar Evrópu í Efnahagsbandalaginu eftir síðari heimsstyrjöldina og svo sögu sambandsins áfram til okkar daga. Hann víkur einnig að aðildarferlinu eins og það snýr að Íslandi en þar kemur fram hve margbrotið það er.

„Þetta eru um 2.000 meiri háttar ákvarðanir og þúsundir manna sem að þessu koma, ef ekki tugþúsundir.

Þeir sem einblína á Spánverja og fiskinn í umræðunni eru á villigötum."

Snýst að miklu leyti um uppgjörið við bankahrunið

– Hvernig þá?

„Þetta snýst að miklu stærra leyti um uppgjör Íslands við hrunið.

Evrópusambandið þarf að taka um 2.000 meiri háttar ákvarðanir áður en Ísland getur gengið í sambandið. Og það sem meira er, allar þessar um 2.000 ákvarðana verða, hver og ein og einasta, að falla Íslandi í vil.

Þannig að það eru um 2.000 meiri háttar ákvarðanir sem standa í vegi Evrópusambandsaðildar Íslands. Og það er aðeins Evrópusambandsmegin. Ferlið er flókið.

Í fyrsta lagi þarf framkvæmdastjórn sambandsins að komast að þeirri niðurstöðu að það eigi að hefja formlegar aðildarviðræður við Ísland. Síðan þurfa 27 aðildarríki ráðherraráðsins að samþykkja að hefja aðildarviðræðurnar.

Að því loknu er það sérstök ákvörðun að opna hvern og einn af þessum 35 efnisköflum sem semja þarf um, svo sem um landbúnaðar- og peningamál. Til að mynda í tilviki Tyrklands er aðeins búið að opna nokkra þessara kafla.

Það eru því 27 ríki sem þurfa að samþykkja að opna hvern og einn efniskafla. Það eru aftur 27 sinnum 35 sem gera 945. Síðan þarf að ná samningum um alla þessa efniskafla, sem aftur gera 945 yfirferðir. Þetta eru því samtals 1.890 kaflar.

Síðan þarf framkvæmdastjórnin að ljúka aðildarsamningnum í heild sinn. Svo þarf ráðherraráðið, sem 27 ríki eiga aðild að, að samþykkja samninginn fyrir sitt leyti áður en það kemur til kasta Evrópuþingsins að samþykkja samninginn.

Að því loknu þurfa þjóðþing allra aðildarríkjanna, sem eru 27, líka að samþykkja aðildarsamninginn. Og ekki nóg með það. Þau starfa hvert með sínum hætti. Sum þessara ríkja eru sambandsríki, eins og Þýskaland, þar sem eru 12 sambandsríki," segir Eiríkur Bergmann Einarsson.

Bókin Frá Evróvisjón til evru kemur út í dag.
Bókin Frá Evróvisjón til evru kemur út í dag. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert