Ummælin fráleitur þvættingur

Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, segir í bréfi til Jóhönnu Sigurðardóttur …
Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, segir í bréfi til Jóhönnu Sigurðardóttur að lánið komi ekki til greina.

„Mér finnst það fráleitur þvættingur og dónaskapur að halda því fram að forsætisráðherra Íslands sé að beita sér gegn lánveitingu án skilyrða til okkar Íslendinga,“ segir Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra um þau ummæli Höskuldar Þórs Þórhallssonar að hún hafi beitt sér gegn norsku risaláni.

Á fréttavef ABC Nyheter segir, að Stoltenberg hafi í tölvupósti, sem hann sendi Jóhönnu í fyrradag, útilokað að Norðmenn veiti Íslandi hærra lán og jafnframt ítrekað að Ísland verði að uppfylla skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins áður en hægt sé að afgreiða upphaflega lánið.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, tekur undir með Höskuldi að þeim flokksbræðrum hafi í heimsókn sinni til Noregs fyrir helgi, þar sem þeir ræddu við fulltrúa flokkanna um möguleika á lánveitingunni, verið tjáð að Samfylkingin hefði lagst gegn lánveitingunni frá Norðmönnum.

Málatilbúnaðurinn þvættingur

Jóhanna segir þetta af og frá.

„Þetta er bara þvættingur. Ég skil bara ekkert hvað þeim gengur til þessum mönnum að bera slíkt á borð. Þvert á móti sendi ég fyrirspurn um það til Stoltenbergs um hvort það komi til greina að stjórnvöld bjóði okkur 2.000 milljarða króna lán án skilyrða. Ég veit ekki hvað þessir menn halda. Heldur Höskuldur virkilega að forsætisáðherra Noregs fari að búa til svar eftir pöntun frá mér? Þetta er auðvitað algjörlega fráleitt.

Þeir eru auðvitað aðeins að fela það að þeir komi tómhentir til baka. Þetta er ómerkilegur blekkingarleikur sem þeir hafa sett á svið með því að halda því fram að við myndum fá þessi lán. Ég taldi mér skylt að spyrja sérstaklega hvort þau stæðu til boða og það var alveg skýrt.“

Veit ekki við hverja þeir hafi rætt

- Hvernig stendur þá á því að tvímenninganir fullyrði að fulltrúar allra flokkanna, að Verkamannaflokknum undanskyldum, séu mjög jákvæðir í garð lánsins og fylgjandi því að skoða þennan möguleika alvarlega?

„Ég veit ekki við hverja þeir hafa rætt þarna. Miðað við það sem kemur frá þeim um þetta - þar sem þeir fara fram með hrein ósannindi - þá veit ég ekki hverju öðru ég á að trúa sem frá þeim kemur. Það var alveg skýrt í svari Stoltenbergs [...] Ég spurði forsætisráðherrann sérstaklega að þessu, hvort þetta komi til greina. Við hefðum sent formlegt svar ef þetta hefði komið til greina.

Það kom skýrt fram að hvorki innan norsku ríkisstjórnarinnar eða á vettvangi norræna ríkisstjórna hefði verið rætt um að stækka þennan lánapakka sem var ætlaður Íslandi. Þeir lögðu mikla áherslu á norræna samvinnu og að lánin til Íslands væru sameiginlegt verkefni Norðurlanda, eins og verið hefur,“ segir Jóhanna og heldur áfram.

Tekið nógu langan tíma að fá 83 milljarða

„Það geta allir séð að þetta eru 83 milljarðar króna sem að Norðmenn eru að lána Íslendingum en þarna eru framsóknarmenn að tala um einhverja 2.000 milljarða króna. Það hefur tekið nógan langan tíma að fá þessa 83 milljarða þannig að þetta er auðvitað ekki uppi á borðinu og það hefur verið staðfest.

Ég lét kanna það í norska stjórnkerfinu, fjármálaráðuneytinu og á fleiri stöðum áður en ég sendi Stoltenberg þessa fyrirspurn hvort þetta gæti komið til greina. En svarið er alls staðar það sama. Þannig að ég er aldeilis undrandi á þeim að bera slíkt á borð.“

Norðmenn verið okkur velviljaðir

- Tvímenningarnir segja að í Noregi sé mikill vilji fyrir láninu og að 1.000 milljarðar króna myndu duga í þessu samhengi og að því þurfi ekki 2.000 milljarða eins og fulltrúi Miðflokksins hafi sagt að standi til boða. Er þetta virkilega það óraunhæft í ljósi þess að upphæðin er aðeins brot af norska olíusjóðnum? 

„Það er alveg ljóst að Norðmenn hafa verið okkur mjög velviljaðir. Það er alveg ljóst. Engu að síður er þetta svar sem er komið frá þeim og ég er fús til að birta alla pósta og gögn um það sem okkur Stoltenberg hefur farið á milli til þess að afhjúpa þennan þvætting sem þeir eru með að halda því virkilega fram að ég hafi beitt mér gegn þessu láni.

Ég væri fyrsta manneskjan til að fagna því ef við gætum fengið hvort það væru 1.000 milljarðar eða 2.000 milljarðar að láni frá Norðmönnum án skilyrða. Ég væri fyrsta manneskjan til að fagna því. En blákaldar staðreyndir málsins eru þær að þetta er ekki í boði.“

Tilbúin að leggja allt upp á borðið

- Þannig að það hefur enginn flokksbróðir þinn eða systur sent Verkamannaflokknum bréf þar sem að lagst er gegn stærra láni?

„Alls ekki. Ég er tilbúin að leggja allt upp á borðið til að sanna það. Mér finnst að þessir menn eigi að biðjast afsökunar á þessum blekkingum. Þetta er auðvitað bara upphlaup. Þetta er tilraun til að breiða yfir þá sneypuför sem þeir hafa farið í.

Mér finnst það fráleitur þvættingur og dónaskapur að halda því fram að forsætisráðherra Íslands sé að beita sér gegn lánveitingu án skilyrða hingað til okkar Íslendinga. Það sjá þetta allir í hendi sér. Ég er aldeilis undrandi á þessu,“ segir Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. mbl.is/Ómar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, kveðst hafa heimildir fyrir því …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, kveðst hafa heimildir fyrir því að Jóhanna hafi beitt sér gegn risaláni frá Noregi. mbl.is
Höskuldur Þ. Þórhallsson tekur undir þetta.
Höskuldur Þ. Þórhallsson tekur undir þetta. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert