Hælisleitendi í hættu

Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra.
Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Ómar

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, gagnrýnir Rögnu Árnadóttur dómsmálaráðherra harðlega fyrir hvernig staðið var að flutningi fjögurra hælisleitenda frá landinu. Einn þeirra sé um tvítugt og hafi verið settur beint út á götu í Aþenu. Þar hann eigi á hættu að vera sendur til Íraks.

Birgitta sagði að vegna anna hjá yfirvöldum innflytjendamála í Aþenu muni maðurinn sennilega ekki fá afgreiðslu þegar í stað. Því spurði hún Rögnu hvers vegna manninum skyldi ekki vera leyft að dvelja á Íslandi í þá 15 daga sem áfrýjunarfresturinn varir. Hann sé „peningalaus og allslaus“ í Aþenu.

„Hefði hæstvirtur mannréttindamálaráðherra brotið lög með því að leyfa Muhr að kveðja vini sína, hafa símann sinn opinn og segja upp vinnunni sinni á meðan hann beið þess að vera sendur úr landi?“ spurði Birgitta.

Þá spurði hún ráðherrann hvort það teldist „mjúk meðferð“ að meina manninum að skipta krónum sínum í annan gjaldmiðil til notkunar í Aþenu.

Ragna svaraði því til að Ísland væri aðili að Dyflinnar-samkomulaginu og að samkvæmt því væru hælisleitendur sendir til landsins sem þeir fyrst sóttu um hæli í. Finna þyrfti almenna mælikvarða á undantekningu frá þessu til að gæta jafnræðis á milli hælisleitenda hér á landi.

Við skoðun hafi komið í ljós að ekkert Norðurlandanna hafi ákveðið að senda hælisleitendur ekki til Grikklands.

Birgitta sakaði Rögnu þá um að svara í engu spurningum sínum um harða meðferð á manninum.

Ragna svaraði því til að grísk yfirvöld hefðu sérstaklega staðfest að þau myndu veita mönnunum viðtöku. Meðferð þeirra væri í samræmi við áherslur Mannréttindadómstólsins. Hún kannaðist ekki við að ekki skuli hafa verið farið að áfrýjunarfrestum. „Bagalegt“ væri að aðeins einn þeirra skuli hafa nýtt sér rétt til að skjóta máli sínu til dómstólsins eftir að niðurstaðan um brottflutning lá fyrir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert