Ætlar ekki að innheimta lán til barna

Íslandsbanki hyggst ekki innheimta skuld þeirra stofnfjáreigenda Byrs sem fengu lán hjá gamla Glitni út á ófjárráða börn sín við stofnfjáraukningu í Byr síðla árs 2007. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins er um tíu börn að ræða.

Viðskiptablaðið vakti athygli á þessu í dag  þar sem kom m.a. fram að margir stofnfjáreigendur Byrs íhuguðu málsókn á hendur Íslandsbanka vegna þessara lána.

Bankinn sendi í dag frá sér yfirlýsingu þar sem segir m.a. að hann harmi þetta mál í alla staði.

Við stofnfjáraukningu Byrs óskuðu nokkrir stofnfjáreigendur eftir því að Glitnir fjármagnaði stofnfjárkaup fyrir börn sín, voru börnin þá þegar stofnfjáreigendur og nutu forgangsréttar í útboðinu. Segir Íslandsbanki að í öllum tilvikum hafi foreldrar eða forráðamenn umræddra barna haft frumkvæði að lántökunni og komið fram fyrir þeirra hönd gagnvart Glitni.

Frá stofnun Íslandsbanka hafa þessar lánveitingar verið til skoðunar. Við þá athugun kom í ljós að ekki lá fyrir samþykki yfirlögráðanda, þ.e. sýslumanns, til lántöku barnanna. Því telur bankinn að umræddir lánasamningar séu ógildir og skuldirnar því ekki verið settar í innheimtu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert