Óhætt að bólusetja með Pandemrix

Bóluefnið Pandemrix er framleitt af GlaxoSmithKlein.
Bóluefnið Pandemrix er framleitt af GlaxoSmithKlein.

Haraldur Briem sóttvarnalæknir segir að engin ástæða sé að óttast notkun á bóluefninu Pandemrix, sem GlaxoSmithKlein framleiðir. „Lyfjastofnun er búin að gefa grænt ljós á að nota þetta,“ segir Haraldur.

Fram hefur komið í erlendum fjölmiðlum að svissnesk stjórnvöld hafi ekki veitt leyfi til að nota bóluefnið til að bólusetja þungaðar konur, börn og fólk 60 ára og eldra við svínaflensu.

Haraldur segir að Landlæknisembættið hafi tekið mjög ákveðna afstöðu í þessu máli. „Við teljum þetta bóluefni ekki á nokkurn hátt geta verið skaðlegt fyrir konu eða barn,“ segir hann.

Von á 26.000 skömmtum

Aðspurður segir Haraldur að verið sé að bólusetja þungaðar konur og fólk í áhættuhópum. Bólusetningin hafi gengið vel. Hann segir að von sé á talsverðu magni af bóluefni til Íslands um helgina, eða um 26.000 skömmtum. Fyrr í þessari viku bárust um 4.000 skammtar af bóluefni.

Haraldur segir að staðan á sjúkrahúsum landsins sé frekar róleg. Einn hafi legið á gjörgæsludeildinni á Akureyri en nú sé búið að útskrifa hann. Í gær lágu 35 á Landspítalanum í Reykjavík. Þar af 8 á gjörgæsludeild.

Dreifist hægar

Spurður um útbreiðslu flensunnar segir Haraldur: „Það hefur dregið mjög úr hraðaaukningunni í síðustu viku. Svo sjáum við hvernig þessi vika kemur út. Hún segir okkur þá meira til um það hvort að við séu að toppa eða ekki. Það er ekki alveg klárt ennþá, en svo er dagamunur á þessu. Stundum er rólegt og stundum er allt upp í loft. En ég held að það sé klárlega að draga úr útbreiðslunni núna. Ef við toppum í þessari viku eða þeirri næstu, þá dregur smám saman úr þessu í nóvember.“

Í gær var viðbúnaður á Landspítala færður á svokallað virkjunarstig, samkvæmt viðbragðsáætlun spítalans, vegna aukins álags af völdum inflúensufaraldursins. Þetta er næstefsta stig af fjórum sem skilgreint er í áætluninni; efst er neyðarstig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert