Samningar vegna skulda heimila og einstaklinga undirritaðir

Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra og Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra undirrituðu í morgun samninga við fjármálafyrirtæki, lífeyrissjóði og Íbúðalánasjóð um úrræði vegna skuldavanda einstaklinga og heimila og framkvæmd þeirra voru undirritaðir í félags- og tryggingamálaráðuneytinu í dag.

Í tilkynningu frá félags- og tryggingamálaráðuneytinu segir að einstaklingar sem vilji lækka greiðslubyrði af fasteignaveðlánum, bílalánum og bílasamningum geti nú sótt um greiðslujöfnun þessara lána og samninga þannig að greiðslubyrðin lækki frá og með gjalddaga í desember. Einnig var undirritaður samningur um sértæka skuldaaðlögun sem er úrræði fyrir einstaklinga og fjölskyldur sem eiga í það miklum greiðsluerfiðleikum að almenn úrræði nægja ekki til lausnar vandans. 

Í tilkynningunni kemur fram að sækja þarf um greiðslujöfnun fasteignaveðlána í erlendri mynt og sömuleiðis um greiðslujöfnun bílalána og bílasamninga. Hins vegar verður greiðslujöfnun sett sjálfkrafa á öll verðtryggð fasteignaveðlán sem eru í skilum, frá og með gjalddaga í desember. Þeir sem ekki vilja greiðslujöfnun þessara lána þurfa því að tilkynna það til lánveitanda síns fyrir 20. nóvember. Lántakar þurfa að hafa samband við lánveitanda ef lán eru ekki í skilum og leita leiða til að koma láni í skil til að öðlast rétt til greiðslujöfnunar.

Í tilkynningunni segir jafnframt:

“Þótt fólk afþakki greiðslujöfnun verðtryggðra fasteignaveðlána nú hefur fólk ekki fyrirgert rétti sínum til greiðslujöfnunar, heldur getur sótt um hana síðar, telji fólk það henta aðstæðum sínum. Greiðslujöfnun fasteignaveðlána í erlendri mynt og greiðslujöfnun bílalána og bílasamninga þarf að sækja um sérstaklega og er hægt að gera það hvenær sem er. Umsókn þarf að berast með að lágmarki 10 daga fyrirvara eigi hún að taka gildi á næsta ógreidda gjalddaga lánsins. Athygli er þó vakin á því að greiðslujöfnun bílalána og bílasamninga verður í boði í takmarkaðan tíma, þ.e. frá 1. Nóvember 2009 til ársloka 2010 og gildir úrræðið fyrir einstaklinga sem tóku bílalán eða gerðu bílasamning fyrir 1. Október 2008.

Lækkun greiðslubyrði vegna greiðslujöfnunar

Lækkun greiðslubyrði af lánum vegna greiðslujöfnunar er nokkuð mismunandi. Algeng lækkun á greiðslubyrði láns í erlendri mynt við upphaf greiðslujöfnunar er á bilinu 20-35% en það ræðst af samsetningu myntkörfunnar sem lánið miðast við.

Almennt verður lækkun greiðslubyrði af verðtryggðum lánum sem tekin voru fyrir 1. Janúar 2008 um 17% miðað við gjalddaga í desember næstkomandi. Greiðslubyrðin lækkar þó minna en þetta af lánum sem eru með breytilegum vöxtum og eins ef lánin hafa sætt skuldskeytingu.

Mikilvægt er að hver og einn meti hvort greiðslujöfnun henti aðstæðum hans. Þetta úrræði er mikilvægt fyrir þá sem að óbreyttu eiga erfitt með að standa skil á afborgunum lána sinna og hentar einnig þeim sem vilja auka ráðstöfunartekjur sínar. Hins vegar ber að hafa í huga að þegar upp er staðið felur greiðslujöfnun í sér aukinn kostnað vegna vaxta og verðbóta. Nánari upplýsingar má sjá á vefnum: http://www.island.is

Hvað felst í greiðslujöfnun?

Greiðslujöfnun lána felst í því að afborganir eru tengdar greiðslujöfnunarvísitölu sem Hagstofa Íslands reiknar út mánaðarlega. Vísitalan byggist á launavísitölu sem vegin er með atvinnustigi. Höfuðstóll lánsins er eftir sem áður verðtryggður/gengistryggður en mismunurinn sem verður til vegna lægri afborgana en ella færist á jöfnunarreikning sem veldur því að lánið lengist til að byrja með. Eftir því sem atvinnuástand batnar og laun taka að hækka á ný mun greiðslujöfnunarvísitalan hækka og þar með afborganir af lánunum. Þar með tekur lánið að styttast á ný.

Sett hefur verið þak á greiðslujöfnun fasteignaveðlána sem tryggir að lenging þeirra vegna greiðslujöfnunar verður aldrei meira en þrjú ár. Ef einhverjar eftirstöðvar eru á lánum að þessum tíma liðnum verða þær felldar niður. Þriggja ára þak er einnig á greiðslujöfnun vegna bílalána og bílasamninga, en ef einhverjar eftirstöðvar eru að þeim tíma liðnum þarf lántaki að greiða þær upp eða skila bílnum ella til lokauppgjörs.

Sértæk skuldaaðlögun

Sértæk skuldaaðlögun er fyrir einstaklinga og heimili sem eiga í verulegum greiðsluerfiðleikum þar sem fullreynt er að vægari úrræði nægja ekki til lausnar á vandanum. Skuldaaðlögun felur í sér samning milli kröfuhafa og lántaka um leið til að laga skulda- og eignastöðu lántakans að greiðslugetu hans. Lántakinn greiðir af skuldum sínum eins og greiðslugeta hans leyfir á samningstímanum en kröfuhafar fallast á eftirgjöf krafna, hlutfallslega lækkun þeirra eða gjaldfrest á þeim kröfum sem eru umfram greiðslugetu.

Einstaklingur sem leitar eftir skuldaaðlögun skal snúa sér beint til aðalviðskiptabanka síns (banka eða sparisjóðs) sem leiðir skuldaaðlögunarferlið og telst því umsjónaraðili. Með aðalviðskiptabanka er átt við þann banka eða sparisjóð þar sem viðkomandi er með launareikning sinn.”  

 

Undirritaðir voru samningar um:

Samkomulag um beitingu greiðslujöfnunar með þaki á lengingu lánstíma fyrir verðtryggð fasteignaveðlán einstaklinga og fasteignaveðlán einstaklinga í erlendri mynt , en samkomulagið var undirritað af félags- og tryggingamálaráðherra, efnahags- og viðskiptaráðherra, Íslandsbanka, NBI Landsbankanum, Nýja Kaupþingi banka, Byr sparisjóði, Sambandi íslenskra sparisjóða, Kaupþingi banka hf. Slitastjórn SPRON, Samtökum fjármálafyrirtækja (SFF) f.h. annarra aðildarfélaga sinna sem eru á íbúðalánamarkaði, Landssamtökum lífeyrissjóða og Íbúðalánasjóði.

Samkomulag um beitingu greiðslujöfnunar fyrir verðtryggð bílalán og bílasamninga í erlendri mynt, en samkomulagið var undirritað af félags- og tryggingamálaráðherra, efnahags- og viðskiptaráðherra, forsvarsmönnum Avant, Íslandsbanka, Lýsingar, Sp-Fjármögnunar og Tryggingamiðstöðinni.

Þá var einnig undirritað samkomulag um verklagsreglur um sértæka skuldaaðlögun einstaklinga, undirritað af Samtökum fjármálafyrirtækja fyrir hönd aðildarfyrirtækja sinna, Íbúðalánasjóði og Landssamtökum lifeyrissjóða fyrir hönd aðildarsjóða sinna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert