Gagnrýna vinnubrögð við skattlagningu

Þingfundur hefur verið á Alþingi í allan dag.
Þingfundur hefur verið á Alþingi í allan dag. Heiðar Kristjánsson

Alþingi samþykkt skattafrumvarp ríkisstjórnarinnar við aðra umræðu með 29 gegn 23. Stjórnarandstaðan gagnrýndi vinnubrögð ríkisstjórnarinnar harðlega við afgreiðslu frumvarpsins.

Við aðra umræðu um frumvarpið kom fram tillaga frá meirihluta efnahags- og skattanefndar að hætta við áform um að taka upp 14% þrep í virðisaukaskattskerfinu. Jafnframt var gerð tillaga um að hækka hærra þrepið um 0,5% prósentustig. Hærra skattþrepið verður því 25,5%. Stjórnarandstæðingar sögðu það til bóta að hætta við 14% þrepið. Það hefði verið einróma mat þeirra sem komu fyrir nefndina að það væri slæmt að vera með þrjú þrep í virðisaukaskatti.

Stjórnarandstæðingar bentu hins vegar á að engar umræður hefðu farið fram í efnahags- og skattanefnd um þessa breytingu og málið væri allt unnið í miklum flýti. Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokks, sagðist telja líklegt að mistök leyndust í þessu frumvarpi þar sem menn hefðu ekki gefið sér tíma til að fara vandlega yfir það.

Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði að of langt væri gengið í skattlagningu. Hægt væri að ganga svo langt að skattstofninn minnkaði og enginn tekjuaukning yrði hjá ríkissjóði. Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, svaraði gagnrýni á þessar skattahækkanir og sagði að með því að auka skatta væri komist hjá því að skera niður í velferðarþjónustunni.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði ekki rétt sem þingmenn stjórnarandstöðunnar héldu fram að Ísland yrði með hæsta virðisaukaskatt í heimi. Hann sagði að hlutfallslega væri Ísland ekki með hæsta virðisaukaskattinn. Mjög stór hluti af neysluvarningi heimilanna væri í 7% þrepi og í mörgum löndum væri þetta þrep mun hærra en á Íslandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert