Nota á hugtakið landráð varlega

Guðni Jóhannesson í fyrirlestrarsal Háskólans í Reykjavík í dag.
Guðni Jóhannesson í fyrirlestrarsal Háskólans í Reykjavík í dag. mbl.is/GSH

Guðni Jóhannesson, sagnfræðingur, sagði í fyrirlestri í Háskólanum í Reykjavík að það væri hans skoðun að nota ætti orð eins og landráð og byltingu varlega þegar fjallað er um fjármálahrunið árið 2008 og aðdraganda þess.

Guðni sagðist óttast að verið væri að gengisfella hugtakið landráð með því að nota það í tengslum við efnahagshrunið. Vissulega hefði merking þessa hugtaks víkkað út í hruninu og eftirköstum þess og mörgum Íslendingum þætti sem landráð hafi verið framin í fjármálakerfinu því þar hefðu menn bakað landinu svo stórfellt tjón að það jafngildi landráðum.

Guðni sagði, að örugglega hefðu framdir glæpir í aðdraganda hrunsins og örugglega hefðu margir hagað sér með óábyrgum hætti. „En mér finnst að við eigum að halda hugtakinu landráðum utan við það," sagði Guðni.

Hann sagði jafnframt, að bíða yrði eftir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, niðurstöðum sérstaks saksóknara áður en einhverju yrði slegið föstu. Síðan myndi örugglega margt í tengslum við hrunið og aðdraganda þess ekki koma í ljós fyrr en skjöl verða gerð opinber, þar á meðal í útlöndum, og þátttakendur í atburðarásinni fari sjálfir fjalla um það.

Guðni fór yfir landráðahugtakið í Íslandssögunni en sagði, að engin fordæmi væru í sögunni, sem hægt væri að bera saman við hrunið. Því gætu Íslendingar lítið lært af sögunni til að meta hvort landráð hafi verið framin í efnahagshruninu. 

Þá sagði hann, að hugsanlega verði niðurstaðan sú, að landráðakafla hegningarlaganna verði breytt þannig að hann nái einnig yfir brot sem valda þjóðinni stórkostlegu tjóni. Þegar þeir, sem sömdu landráðakafla hegningarlaganna hefðu verið að vinna sína vinnu hefði þeim, ef marka mætti greinargerð með lagafrumvarpinu, þótt „á grensunni" að landráð gæti náð yfir efnahagslegt tjón. Þeir hefðu fyrst og fremst hugsað um stríð, njósnir og byltingu og ekki haft ímyndunarafl til að sjá fyrir sér hrun íslenska efnahagslífsins 60 árum síðar. 

„Lausnin væri því frekar að endurskoða landráðakaflann en að reyna að teygja  það sem gerðist yfir á eitthvað sem var samið fyrir 60 árum. Það er að minnsta kosti mín bráðabirgðaniðurstaða," sagði Guðni Jóhannesson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert