Jóhanna í einkaheimsókn

Jóhanna Sigurðardóttir og José Manuel Barroso í höfuðstöðvum Evrópusambandsins í …
Jóhanna Sigurðardóttir og José Manuel Barroso í höfuðstöðvum Evrópusambandsins í morgun.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði á Alþingi í dag, að heimsókn Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, til Brussel væri skilgreind sem einkaheimsókn. Fundur Jóhönnu með José Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, var fyrirhugaður fyrir hádegi í dag.

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði að í  stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar væri kveðið á um að stuðla skuli að opinni stjórnsýslu. Spurði hann Össur af hverju svo mikil leynd væri yfir ferð forsætisráðherra til Brussel og hvers vegna hún nýtti ekki tækifærið til að tala við erlenda fjölmiðla og tala þar máli Íslands.

Össur sagði, að heimsóknin væri skilgreind sem einkaheimsókn. Hún hefði verið nokkurn tíma í undirbúningi en tækifærið til að hitta Barroso hefði gefist með litlum fyrirvara. Jóhanna færi til að ræða við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um ýmis brýn mál sem tengjast samskiptum Íslands við sambandið.

„Vitaskuld ber á þeim fundi á góma mál sem tengjast aðildarumsókn Íslands að sambandinu. Eins og menn hafa getað lesið í erlendum blöðum  hafa menn verið að leiða líkur að því að sú deila, sem uppi er um Icesave kunni að hafa áhrif á það... Sömuleiðis er ég ekki í nokkrum vafa um það, og veit það einnig, að forsætisráðherra mun ræða það mál, sem við höfum verið að rökræða hér mánuðum saman hér í þinginu, það er að segja Icesave málið og lausn á því. Ráðherra mun skýra út fyrir framkvæmdastjóra Evrópusambandsins stöðuna í því máls og hvaða leiðir eru hugsanlegar til lausnar á því.

„Ég geri svo ráð fyrir því að ef forsætisráðherra telur að viðræður séu með þeim hætti að hægt sé að greina frá þeim þá muni hún miðla þeim upplýsingum," sagði Össur.

Guðlaugur Þór sagði að málið væri algerlega óskiljanlegt. Össur lýsti heimsókninni sem einkaheimsókn en aðstoðarmaður forsætisráðherra hefði sagt að Jóhanna væri í Brussel í opinberum erindagerðum. 

„Þetta er auðvitað ekki bjóðandi og utanríkisráðherra verður að vera skýrari. Af hverju er ekki verið að nota þetta tækifæri til þess að tala við evrópsku pressuna?" spurði hann.

Össur sagði að Jóhanna hefði ekki gert ráð fyrir því fyrirfram að veita  viðtöl. Sjálfur sagðist hafa sama hátt á þegar hann hitti starfsbræður sína erlendis.

„Það skiptir heldur enga máli hvort heimsóknin sé skilgreind sem einkaheimsókn eða einhverskonar annarskonar heimsókn. Það sem skiptir máli er hvort slík heimsókn og viðræður beri tilætlaðan árangur. Það sem skiptir máli er að við ræktum tengslin við umheiminn, ekki síst stór þjóðabandalög eins og ESB, sem eru okkur gríðarlega mikilvæg, ekki aðeins vegna viðskiptahagsmuna heldur einnig vegna aðildarferlisins." 

mbl.is