Samið um orkusölu til sólarkísilverksmiðju

Skrifað undir samningsrammann í dag.
Skrifað undir samningsrammann í dag. mbl.is/Ómar

Skrifað var í dag undir samningsramma um orkusölu til kísilmálm- og sólarkísilverksmiðju, sem áformað er að reisa í Ölfusi, rétt vestan Þorlákshafnar. Væntanlegur kaupandi er Thorsil ehf, félag sem kanadíska fyrirtækið Timminco Limited og Strokkur Energy ehf stofnuðu saman um verkefnið. Timminco rekur eina kísilmálmverksmiðju í Kanada.

Stjórn Timminco samþykkti samningsrammann fyrir sitt leyti í fyrri viku og stjórn Orkuveitu Reykjavíkur á fundi í dag. Síðasti áfangi í uppbyggingu verksmiðjunnar verður til framleiðslu á kísilhleifum, sem notaðir eru við gerð sólarrafhlaðna. 

Um er að ræða sölu á 85 megavöttum til 20 ára. Afla á orkunnar frá Hverahlíðarvirkjun og er um að ræða alla framleiðslu virkjunarinnar. Umhverfismati vegna hennar er lokið. Orkuveitan segir, að fjármögnun virkjunarinnar hafi verið tryggð að hálfu leyti með hagstæðu láni frá Evrópska fjárfestingabankanum í nóvember síðastliðnum. Fjárfestingin í virkjuninni nemi um 30 milljörðum króna og verði ekki ráðist í frekari framkvæmdir við hana fyrr en fjármögnun sé lokið og fyrir liggi endanlegur sölusamningur á orku.

Áformað er að reisa verksmiðjuna á nýjum iðnaðarlóðum, sem verið er að skipuleggja vestan byggðarinnar í Þorlákshöfn. Heildarfjárfesting í henni er á þessu stigi áætluð 162 milljónir evra, sem svarar til um 28,5 milljarða íslenskra króna. Áfangar áformaðrar uppbyggingar eru þrír, á árunum 2013 til 2014. Nú þegar starfa sex verkfræðingar og stjórnendur við verkefnið hér á landi.

Á byggingartíma er gert ráð fyrir 350 til 400 ársstörfum við verkefnið og að 160 manns muni starfa við verksmiðjuna fullbyggða. Talið er að tilkoma verksmiðjunnar muni hafa áhrif á vinnumarkað í Þorlákshöfn og Ölfusi, í Hveragerði, í Árborg og á Reykjavíkursvæðinu.

Í samningsrammanum er tekið á helstu efnisatriðum hugsanlegs orkusölusamnings. Samkomulagið er ekki bindandi og er stefnt að því að ljúka samningi milli aðila á næstu mánuðum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert