Brautskráning úr RES Orkuskóla

Útskráning meistaranema í endurnýjanlegum orkufræðum frá RES Orkuskóla þann 19. …
Útskráning meistaranema í endurnýjanlegum orkufræðum frá RES Orkuskóla þann 19. febrúar 2010.

Þrjátíu og fimm nemendur frá ellefu þjóðlöndum voru í dag brautskráðir með M.Sc. gráðu í endurnýjanlegum orkumfræðum frá RES Orkuskóla á Akureyri. Tveir Íslendingar voru á meðal útskriftarnema, Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir og Ívar Baldvinsson.

Er þetta önnur brautskráning RES Orkuskólans (RES – the School for Renewable Energy Science). Nemendur stunda námið í eitt ár samfleytt og luku nemendur prófum af fjórum námsbrautum. Þrír nemendur úr útskriftarhópnum fengu viðurkenningar fyrir námsárangur yfir 9 í meðaleinkunn.

Samkvæmt tilkynningu frá RES Orkuskóla koma 65 kennarar, sem eru bæði innlendir og erlendir prófessorar og fræðimenn að kennslunni. Skólinn hefur nána samvinnu við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri og er meistarargráða nemendanna veitt sameiginlega frá háskólunum.

 Dr. Björn Gunnarsson, forstöðumaður RES Orkuskóla, segir  í tilkynningu skólann stöðugt að festa sig í sessi og skapa sér nafn fyrir einstakt nám á heimsvísu. RES hafi samstarfssamninga við um 35 erlenda háskóla og í gegnum þau tengsl koma nemendur að skólanum. Líkt og á síðasta ári séu Pólverjar fjölmennastir í útskriftarhópnum en áhugi á skólanum fari greinilega vaxandi í háskólunum í Norður-Ameríku, sem  hafi skilað hefur fjölgun nemenda af því heimssvæði. 

 „Við njótum þess að allir þekktustu sérfræðingar hérlendis í orkumálum koma að kennslu eða eru leiðbeinendur með rannsóknarverkefnum. Erlendis er skólinn mjög vel þekktur hjá þeim sem eru að sinna orkumálum og ég tel okkur því hafa náð góðum árangri í að gera skólann eftirsóttan og þekktan á heimsvísu. Nafn okkar verður líka ennþá þekktara eftir því sem við útskrifum fleiri nemendur. Við höldum sambandi við útskriftarnema okkar frá í fyrra og það fólk er að miklum meirihluta farið áfram í doktorsnám eða störf inni í þekktum háskólum erlendis. Allt byggist þetta starf á mikilli innlendri þekkingu í orkufræðum og það sem uppá vantar hér innanlands sækjum við til hátt metinna fræðimanna erlendis. Námið er því í hæsta gæðaflokki,“ segir dr. Björn Gunnarsson.

Íslensku meistararnir í endurnýjanlegum orkufræðum sem útskrifuðust í dag frá …
Íslensku meistararnir í endurnýjanlegum orkufræðum sem útskrifuðust í dag frá RES Orkuskólanum á Akureyri. Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir og Ívar Baldvinsson.
Frá brautskráningu meistaranema í endurnýjanlegum orkufræðum frá RES Orkuskólanum á …
Frá brautskráningu meistaranema í endurnýjanlegum orkufræðum frá RES Orkuskólanum á Akureyri. Þrír nemendur fengu viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur á prófinu. Frá vinstri Zsuzanna Maria Vitai, Ungverjalandi, með 8,97 í meðaleinkunn, Michael J. Hoban, Bandaríkjunum með 9,01 í meðaleinkunn og Tryana Veronica Garza-Cruz frá Mexíkó með 9,03 í meðaleinkunn.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert