Eftirköst flensunnar mikil

Eftirköst svínaflensunnar hafa varað svo vikum og mánuðum skiptir hjá sumum þeirra sem fóru illa út úr flensunni í haust. Nokkuð er um að þeir hafi þurft á endurhæfingu að halda í kjölfarið.

Sem kunnugt er létust tveir einstaklingar hérlendis af völdum svínaflensunnar. Að sögn Más Kristjánssonar, yfirlæknis á smitsjúkdómadeild Landspítalans lögðust 130 – 140 manns inn á spítalann vegna hennar og mun fleiri komu á bráðamóttökurnar. Af þessum hópi lögðust 21 á gjörgæsludeild, þar af 16 með staðfest tilfelli svínaflensu.

Tólf þeirra sem fóru á gjörgæsludeild voru í öndunarvél um lengri eða skemmri tíma, og skipti þá engu hvort fólkið var fullfrískt fyrir eða með undirliggjandi sjúkdóma.

Og nokkuð er um að þetta fólk hafi þurft á endurhæfingu að halda í kjölfarið að hans sögn. Það er því ekki að ósekju að Landlæknisembættið leggur ríka áherslu á að bólusetningum verði haldið áfram þrátt fyrir að svínaflensufaraldurinn sé genginn yfir í bili, enda óttast menn að faraldurinn blossi aftur upp, eins og þekkt er með heimsfaraldra af þessu tagi.

Þegar hafa um 150 þúsund manns látið bólusetja sig hérlendis. Aðrir, sem eru eldri en sex mánaða og ekki hafa fengið staðfest með sýnatöku að þeir hafi fengið svínaflensuna, eru hvattir til að gera slíkt hið sama.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert