Forseti Íslands gekk of langt í þjónustu

Ólafur Ragnar Grímsson.
Ólafur Ragnar Grímsson. mbl.is/Ragnar Axelsson

Æskilegt væri að forsetaembættið setti sér siðareglur þar sem meðal annars yrði ákvæði um það með hvaða hætti er eðlilegt að hann beiti viðskiptalífinu stuðning. Þetta kemur fram í kafla um siðferði og starfshætti í viðauka með skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis þar sem sérstök athygli er vakin á hlutverki forsetans.

Ljóst má vera að forsetinn gekk mjög langt í þjónustu við einstök fyrirtæki og einstaklinga sem stýra þeim, eins og hann hefur sjálfur viðurkennt, segir í skýrslu starfshóps um siðferði í tengslum við fall bankanna. Forsetaembættið var óspart nýtt í þágu einstakra aðila til að koma á tengslum víða um lönd. 

„Þegar lýðræðislega kjörinn forseti lands talar á opinberum vettvangi sem fulltrúi þjóðar sinnar er jafnan hlustað og því skiptir máli hvað hann segir og við hverja hann talar. Þar liggur ábyrgð forseta Íslands.

Forsetinn beitti sér af krafti við að draga upp fegraða, drambsama og þjóðerniskennda mynd af yfirburðum Íslendinga sem byggðust á fornum arfi. Það er athyglisvert að nokkrir þeirra eiginleika sem forsetinn taldi útrásarmönnum til tekna eru einmitt þeir þættir sem urðu þeim og þjóðinni að falli,“ segir í skýrslu siðferðishópsins.

Fram kemur að þrátt að kenningar forsetans væru harðlega gagnrýndar hafi hann haldið áfram að lofa útrásina. „Hann tók þátt í að gera lítið úr þeim röddum sem vöruðu við hættulega miklum umsvifum íslenskra fyrirtækja.“

Nefndin telur að skýra þurfi hlutverk forseta Íslands mun betur í stjórnarskránni.

Setja þurfi reglur um hlutverk og verkefni forseta Íslands og samskipti hans við önnur ríki.

Þá væri æskilegt að forsetaembættið setti sér siðareglur þar sem meðal annars yrðu ákvæði um það með hvaða hætti eðlilegt sé að hann veiti viðskiptalífinu stuðning.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert