Eyjafjallajökull enn vakandi

Eyjafjallajökull séður frá Hvolsvelli.
Eyjafjallajökull séður frá Hvolsvelli.

Eldgosið í Eyjafjallajökli liggur niðri en er þó ekki sofnað með öllu og því er ekki hægt að fullyrða enn um goslok, að sögn Almannavarna. Náið verður fylgst með þróun mála næstu daga áður en skorið verður úr um goslok.

Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur bendir á að eldgosum ljúki yfirleitt með þeim hætti að þau fjari smám saman út. Gosórói í Eyjafjallajökli hafi hinsvegar hætt óvenju snarpt og því sé ástæða til að hafa fyrirvara á yfirlýsingum um goslok. Páll segir gosið nú aðeins stuttan kafla í langri sögu Eyjafjalljökuls og eldsumbrota á Íslandi og þótt hugsanlegt sé að þessum kafla sé nú lokið þá sé áreiðanlegt að sagan haldi áfram. 

Aðspurður um hugsanlegt Kötlugos í kjölfarið segir Páll engar vísbendingar um það eins og er.  Til samanburðar bendi allt til þess að bæði Grímsvötn og Hekla séu „tilbúin“ að gjósa hvenær sem er en það sama megi ekki segja um Kötlu, þótt vitað mál sé að hún muni gjósa fyrr eða síðar. Það kunni þó allt eins að vera smátt gos. 

Vísindamenn fylgjast nú náið með þróun mála og segja í raun ekkert benda til þess að gosið muni byrja aftur, en þó sé ekki hægt að útiloka það. Gufumökkur er enn sjáanlegur á þeim stað þar sem gígurinn er en engar tilkynningar hafa borist um öskufall. „Hver verður næsti kafli? Það er spennandi spurning sem við vitum ekki svarið við og aðeins hægt að giska á hvað gerist næst, “segir Páll. 

Opnað inn í Þórsmörk þarnæstu helgi

Að sögn Víðis Reynissonar deildarstjóra Almannavarna verður nú mikill kraftur lagður í hreinsun á svæðinu og hjálparstarfi verður haldið áfram eins lengi og þörf er á. Almannavarnir eru enn á varðbergi gagnvart og er m.a. sérstök gát höfð á hugsanlegri hættu á aurskriðum á svæðinu, sem orðið geta ef mikið rignir ofan í öskulagið. Vegurinn inn í Þórsmörk er enn lokaður en að sögn Víðis má búast við að viðgerð Vegagerðarinnar ljúki um eða eftir helgina. Náið er unnið með ferðaþjónustunni og er stefnt að því að opna fyrir umferð ferðamanna inn í Þórsmörk, með takmörkunum þó, um þarnæstu helgi.  

Þrátt fyrir að öskufall hafi ekki orðið í nokkradaga er alltaf von á því að aska sem þornar geti hafist á loft meðvindi og roki sem getur leitt til verri loftgæða. Því er ráðlagt að fylgjast með svifryksmælingum áfram á þessum stöðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert