Besti og Samfylking ræða saman

Jón Gnarr og Sigurjón Kjartansson á fundi Besta flokksins.
Jón Gnarr og Sigurjón Kjartansson á fundi Besta flokksins. mbl.is/Eggert

Besti flokkurinn og Samfylkingin í Reykjavík hafa fundað í morgun um myndun nýs meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Að sögn Óttarrs Proppé, borgarfulltrúa Besta flokksins, var fyrst og fremst verið setja niður áætlun um fundahöld næstu daga.

„Besti flokkurinn er nýr í þessu svo það tekur okkur aðeins lengri tíma að moka okkur í gegnum þetta, við erum ekki vön," sagði Óttarr. "Það er klárt frá allra hálfu að við ætlum ekki að hlaupa í einhverju stressi."

Þegar blaðamaður náði tali af Jóni Gnarr sagðist hann ekki hafa tekið þátt í fundahöldum morgunsins. Hann hefði fengið sér góðan nætursvefn í nótt, eytt tíma með fjölskyldunni og svo farið á kaffihús.

Jón sagði að á meðal þess sem ætti að ræða í dag væru meðal annars nokkuð flókin mál, sem tengdust skipulagi á sviðum Reykjavíkurborgar. Ræða ætti leiðir til þess að samræma starf þeirra og einfalda. Þetta væru hugmyndir sem kæmu frá fulltrúum Besta flokksins og verið væri að bera undir Samfylkinguna.

„Við viljum gera gott og allt sem best," sagði Jón.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert