Blíða fyrir norðan og austan

Það ætti að viðra vel á sundlaugagesti á Norðurlandi um …
Það ætti að viðra vel á sundlaugagesti á Norðurlandi um helgina. mbl.is/Skapti

Íbúar á Norður- og Austurlandi geta búist við góðu sumarveðri um helgina ef veðurspár ganga eftir. Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, segir að veðurlagið nú sé mun hagstæðara fyrir norðan- og austanvert landið en Vestur- og Suðurland.

Einar segir, að svo sé að sjá, að skil fari yfir landið á föstudag, með vætu, einkum sunnan- og suðvestantil. Norðan- og austanlands verði vindur suðlægur, fremur hlýtt í veðri og sólin ætti að skína a.m.k. með köflum.

Hann segir, að spár hafi fram til þessa gert ráð fyrir að vindur snúist til norðurs á sunnudag. Nú sé hins vegar að sjá að lægðin sem heimsæki Íslendinga úr suðvestri, ætli að halda sig á þeim slóðum í stað þess að fara á endanum yfir landið. Það veðurlag sé eins og gefi að skilja, mun hagstæðara fyrir norðan- og austanvert landið.

Gott sumarveður fyrir norðan og austan á morgun

Um norðan- og austanvert landið er gert ráð fyrir góðu sumarveðri, hægur suðvestan- og sunnanvindur og léttskýjað. Hiti verður allt að 18 til 20 stig.

Sunnan- og vestanlands þykknar upp um leið og skil frá lægð hér suðvestur í hafi nálgast. Strekkingsvindur af suðaustri, eða allt að 8-10 m/s og rigning frá miðjum degi, einkum sunnan og suðvestanlands. Reiknað er með að skilin fari síðan yfir landið um kvöldið og nóttina, þannig að einnig þar verði sums staðar væta um tíma norðan- og austanlands.

Skúraleiðingar á laugardag fyrir sunnan og vestan

Spáð er suðlægum vindi, víðast fremur hægum. Á Suðurlandi, allt austur á Hornafjörð má reikna með skúraleiðingum eða lítilsháttar rigningu. Svipað veður verður suðvestanlands, en á norðanverðu Snæfellsnesi, við Breiðafjörð og á Vestfjörðum er útlit fyrir að þurrt verði að mestu og skýjað með köflum. Hiti þar verður um 14 til 17 stig yfir daginn.

Á Ströndum og Norðurlandi, austur um á sunnanverða Austfirði er gert ráð fyrir að það létti til á nýjan leik, ef til vill skýjað þó framan af morgni. Vænn hiti á þessum slóðum, eða allt að 17 til 20 stig. Fer jafnvel enn hærra, nái sólin að skína glatt. Hæg sunnanáttin ætti víðast hvar að ná að halda aftur af hafgolunni.

Hlýtt og bjart

Á sunnudag helst veður svipað, enn suðlægur vindur og það er helst að heldur meira verði úr skúraleiðingum eða vætu sunnan- og suðaustanlands. Um norðan- og norðaustavert landið ætti samkvæmt þessu að verða bæði hlýtt og bjart eða um og yfir 20 stiga hiti þegar best lætur og líkast til víða léttskýjað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert