Ummæli Össurar koma á óvart

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. Kristinn Ingvarsson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, undrast orð Össurar Skarphéðinsson utanríkisráðherra um að stuðningur við aðild Íslands að Evrópusambandinu hafi farið vaxandi að undanförnu meðal þingmanna. Sigmundi dettur helst í hug að ráðherra sé með þessu að svara þeim röddum sem hafa heyrst innan Evrópusambandsins um að ríkisstjórnin ætti að styðja umsóknina af þunga.

„Það kemur mér á óvart. Mér hefur heyrst þróunin frekar vera hinu megin. Ég veit ekki hvað hann hefur fyrir sér í því,“ segir Sigmundur Davíð. „Menn eins og Ögmundur Jónasson og Lilja Mósesdóttir hafa frekar verið að herðast í andstöðu en hitt.“

„Menn hafa áhyggjur af tiltölulega litlum stuðningi við þessa umsókn í Evrópusambandinu. Hingað kom til dæmis nefnd þýskra þingmanna frá utanríkismálanefnd þýska þingsins sem sagðist ætlast til þess að stjórnvöld væru virk í því að bakka umsóknina upp. Þ.e.a.s. að ríkisstjórnin ýtti undir að afla henni fylgis. Með öðrum orðum ætti ekki bara að senda inn umsókn og svo myndu menn bara hafa ólíkar skoðanir á því. Heldur var ætlast til þess að ríkisstjórnin sýndi í heild að henni væri alvara með það að vilja ganga inn í ESB. Þannig að kannski er þetta eitthvað til þess að svara slíkum athugasemdum,“ segir formaðurinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert