Lífeyrissjóðir hefðu borið 75% kostnaðar við skuldalækkun

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, en ársfundur sambandsins hefst á morgun.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, en ársfundur sambandsins hefst á morgun. Ernir Eyjólfsson

Um 75% af kostnaði við þá hugmynd lækka öll verðtryggð lán um 18% hefði lent á uppsöfnuðum lífeyri launafólks á almennum vinnumarkaði. Þetta segir í drögum að ályktun um húsnæðismál og greiðsluvanda heimilanna sem lögð verður fyrir ársfund ASÍ sem hefst á morgun.

Á drögunum segir að megnið af greiðslu- og skuldavanda launafólks megi rekja til atvinnuleysis og samdráttar í kaupmætti, ótakmarkaðs aðgangs að lánsfé, fasteignabólu, ólögmætrar lánastarfsemi og gengistryggðra lána gengishruns, verðbólgu og of hárra vaxta.

„Stjórnvöld reistu engar varnir fyrir almenning sem varð saklaust fórnarlamb spilavítishagkerfis frjálshyggjunnar, eftirlitsleysis og skipulagðrar glæpastarfsemi í fjármálakerfinu. Stjórnvöld þverskölluðust við lagasetningu um þvingaða aðlögun á greiðslubyrði að greiðslugetu þar til í óefni var komið.“

Í ályktunardrögunum segir að í hvert sinn sem stjórnvöld hafi kynnt nýtt úrræði til lausnar skuldavanda heimilanna hafa einstakir ráðherrar, stjórnarliðar og stjórnarandstaða boðað nýjar og enn róttækari aðgerðir sem engin innistæða hefur verið fyrir en sem hafa tafið og latt framkvæmd gildandi úrræða.

„75% af kostnaði við nýjustu hugmynd stjórnvalda um 18% niðurskurð allra verðtryggðra lána lendir á uppsöfnuðum lífeyri launafólks á almennum vinnumarkaði meðan ráðherrar, alþingismenn, embættismenn og þeir starfsmenn ríkis- og sveitarfélaga sem eru í opinberu stéttarfélögum bera engan skaða af. Almennu launafólki er ætlað að borga brúsann,“ segir í drögunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert