Frumvarp um gengislán lagt fram

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, lagði frumvarp um gengisbundin lán fram á ríkisstjórnarfundi í dag. Að sögn ráðuneytisins er  markmið frumvarpsins að tryggja öllum einstaklingum sem tóku gengisbundin fasteignaveðlán eða bílalán lægri eftirstöðvar, til samræmis við dóm Hæstaréttar frá 16. september sl.

Rúmlega 37 þúsund heimili eru með slík lán, en það eru þriðjungur heimila í landinu. Skuldir heimilanna lækka um 40-50 milljarða króna við þetta eða að meðaltali um nærri eina og hálfa milljón á heimili með gengisbundið lán, að sögn ráðuneytisins.

Efnahags- og viðskiptaráðuneytið segir, að markmið frumvarpsins sé að tryggja sanngirni, þ.e. að allir lántakendur fái þann ávinning sem dómur Hæstaréttar boðar, óháð orðalagi lánasamnings. Jafnframt verði skilvirkt uppgjör skulda tryggt og lánastofnunum veitt 30 daga hámark til að endurreikna gengisbundin lán eða 60 daga hámark í þeim tilfellum sem eigendaskipti hafa orðið. Í þeim tilfellum er jafnframt gengið úr skugga um að sá lántakandi sem varð fyrir tjóni vegna gengisbreytinga fái það tjón bætt úr hendi lánveitanda.

Ef ábyrgðarmenn hafa greitt lán munu kröfur þeirra ganga fyrir öðrum kröfum. Álagning dráttarvaxta eða vanskilagjalda við uppgjör verður í öllum tilvikum óheimil.

Verði frumvarpið að lögum gefst lántakendum færi á að halda láninu í erlendri mynt, kjósi þeir svo. Lántakendum með fasteignaveðlán býðst jafnframt að breyta lánum sínum yfir í verðtryggð kjör. Réttur lántakenda til að láta á mál sitt reyna fyrir dómstólum er ekki skertur.

Unnið er að því að ljúka við einstök útfærsluatriði í frumvarpinu og beðið er skaðleysisyfirlýsinga frá fjármálastofnunum, sem tryggi að ekki verði beint kröfum á hendur ríkinu vegna löggjafarinnar. Vonir standa til að slíkar skaðleysisyfirlýsingar liggi fyrir af hálfu fjármálastofnana í næstu viku. Gert er ráð fyrir að mælt verði fyrir frumvarpinu um leið og Alþingi kemur saman að nýju 4. nóvember nk. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert