Krossinn íhugar stofnun fagráðs

Rætt var um að stofna fagráð um kynferðisbrot líkt og hjá Þjóðkirkjunni á stjórnarfundi í trúfélaginu Krossinum í dag. Sigurbjörg Gunnarsdóttir, stjórnarmeðlimur og dóttir Gunnars Þorsteinssonar, telur eðlilegast að gripið verði til lögfræðilegra úrræða vegna eðlis ásakana gegn honum.

Sjálfur sagði Gunnar á samkomu Krossins nú í kvöld að stjórnin hefði mótað aðgerðir til að bregðast við ásökunum nokkurra kvenna gegn honum um kynferðisbrot en sagði hann stjórnina þurfa nokkra daga til viðbótar til að ljúka við þær.

Dóttir hans, Sigurbjörg Gunnarsdóttir, situr einnig í stjórn trúfélagsins og segir hún að það komi í ljós á næstu dögum hvort að Gunnar kjósi að stíga til hliðar sem forstöðumaður. Stjórnin hefðu ákveðin gögn undir höndum en beðið væri lögfræðinga sem væru erlendis og ákvörðun um framhaldið yrði tekin nú í vikunni.

Aðspurð sagði hún að ekki hafi borið á úrsögnum úr söfnuðinum eftir að málið kom upp heldur þvert á móti. Þeim hafi borist mikið af tölvupóstum og stuðningskveðjum.

„Okkur hafa borist margar vísbendingar um að þetta sé skipulögð rógsherferð gegn honum,“ segir Sigurbjörg.

Lýstu stuðningi við Gunnar

Á samkomu Krossins í kvöld lýstu börn Gunnars og tengdabörn yfir stuðningi við hann en eiginkona hans, Jónína Benediktsdóttir, var aðalræðurmaður kvöldsins.

Jónína sagði m.a. að fólk skyldi aldrei hlusta á gróusögur. „Við eigum að segja sögu okkar blygðunarlaust en við eigum aldrei að skálda sögur í hefndarskyni,“ sagði hún.

Sjálfur sagði Gunnar að nú þegar hátíð ljóss og friðar væri á næsta leyti væri myrkur og ófriður í kringum fjölskyldu hans. Þá sagði Gunnar að hann væri ekki sá maður sem lýst hefði verið í fjölmiðlum undanfarna daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert