Útsvarshækkanir í undirbúningi

Ekki liggur fyrir hversu mörg sveitarfélög hækka útsvar um áramótin en um 80% þeirra innheimta nú þegar 13,28% hámarksútsvar. Þá er talið víst að öll sveitarfélög hækki útsvar um 1,2% til að mæta kostnaði við yfirtöku  á þjónustu við fatlaða, gegn því að ríkið lækki tekjuskatt um sama hlutfall á móti.

Sveitarfélög þurfa að tilkynna fyrirhugaðar útsvarshækkanir til fjármálaráðuneytisins í byrjun desember. Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir að flest sveitarfélög séu nú þegar búin að nýta heimild til hámarksálagningar útsvars. „Nú þurfa þau sveitarfélög sem eru með útsvarið í 13,28% að ákveða að það verði óbreytt en að við það bætist 1,2%hækkun vegna flutnings á málefnum fatlaðra til sveitarfélaganna,“ segir hann.

Halldór á von á að öll sveitarfélög muni nýta heimildina til að hækka útsvarið um 1,2% vegna flutnings á málefnum fatlaðra.

Meirihlutinn í borgarstjórn Reyjavíkur leggur fjárhagsáætlun sína fram á fundi borgarstjórnar sem hefst kl. 14 í dag. Fram kom í Morgunblaðinu í morgun að ætlunin er að hækka útsvar í borginni úr 13,03% í 13,20%. Hækkun útsvars vegna flutnings á þjónustu við fatlaða er þar ekki meðtalin þar sem fjármunir vegna þess kostnaðar eru sérgreindir í samkomulagi ríkis og sveitarfélaga vegna flutningsins á málefnum fatlaðra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert