„Mikil ábyrgð að velta steinum í götuna“

Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður VG, segir að ef ríkisstjórninni takist ætlunarverk sitt, að koma þjóðarskútinni af strandstað, muni það hafa „stórpólitísk og langvinn áhrif“. Hann segir því fylgi mikil ábyrgð að velta steinum í götuna.

Steingrímur sendir flokksfélögum sínum jóla- og áramótakveðju á vef flokksins. Hann fer þar yfir verkefni flokksins og árangur í ríkisstjórnarsamstarfi. Hann segir að samkvæmt fjárlögum næsta árs verði tæplega 1% afgangur af frumjöfnuði í rekstri ríkisins (15,5 m kr.). „Gangi það eftir verður Ísland eitt af aðeins 8 – 10 OECD ríkjum sem ná jákvæðum frumjöfnuði á næsta ári. Fáir hefðu spáð að það tækist haustið 2008. Þessum árangri tókst að ná við lokaafgreiðslu fjárlaga þó verulega væri dregið úr niðurskurði einkum til velferðarmála og sums staðar bætt við.“ 

„Nærri getur að oft hefur reynt á að taka svari flokksins og verja margar erfiðar ákvarðanir sem við höfum orðið að taka í þágu þess verkefnis sem við tókum að okkur. Og hvaða verkefni var það? Jú, eitt umfram allt annað og stærri verða þau nú varla verkefnin sem ein stjórnmálahreyfing tekur að sér. Við tókum að okkur að hafa forystu um að reisa Ísland úr rústum nýfrjálshyggju- og einkavæðingarstefnunnar og, það er að takast. Við erum að nálgast bakkann eftir tveggja ára baráttu út í straumvatninu.

Tali hver fyrir sig, en undirritaður hefur ekki í hyggju að missa móðinn þegar landtaka er í augsýn. Það skyldi nú ekki vera að martröð íhalds- og afturhaldsaflanna sé einmitt sú að fyrstu hreinu vinstri stjórn lýðveldissögunnar kunni að takast það risavaxna verkefni að koma þjóðarskútinni af strandstað, þangað sem þau öfl sigldu henni, á kjöl og siglingu á nýjan leik. Stórpólitísk og langvinn áhrif þess að okkur takist ætlunarverkið skyldi enginn vanmeta. Steinum sem velt er í götuna fylgir mikil ábyrgð,“ segir Steingrímur.

Jólakveðja Steingríms

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert