Mikill hiti í Grímsfjalli

Séð í vesturátt frá skálum Jöklarannsóknarfélagsins á Eystri Svíahnúk á …
Séð í vesturátt frá skálum Jöklarannsóknarfélagsins á Eystri Svíahnúk á Grímsfjalli, laugardaginn 15. janúar. Magnús Þór Karlsson

Frá því stór skjálfti reið yfir við Grímsfjall á Vatnajökli í síðustu viku hefur dregið verulega úr virkni á svæðinu, sem er eitt hið virkasta á landinu. Ferðalangar á svæðinu urðu hins vegar varir við meiri jarðhita en þeir höfðu áður séð í Grímsfjalli.

Í ár verða sjö ár frá því síðast gaus í Grímsvötnum. Grannt er fylgst með þróun mála þar, en talið er líklegt að stutt geti verið í annað gos.

Magnús Þór Karlsson fór ásamt hópi frá Jöklarannsóknafélaginu í Grímsfjall um helgina. Hann segir ferðafélaga sína sammála um það að þeir hafi aldrei séð jafn mikinn hita frá miðhluta Grímsfjalls og þeir sáu nú. Mikil hitaaukning hafi orðið á svæðinu.

Meðfylgjandi mynd er tekin í vestur frá skálum félagsins á Eystri Svíahnúk síðdegis á laugardaginn. Líkt og sjá má er gufumökkurinn mikill, og Vestari Svíahnúkur hulinn honum, þar sem 2 síðustu gos urðu. Magnús ræddi við jarðeðlisfræðing sem sagði að landris á svæðinu væri orðið meira en það varð fyrir gosið árið 2004.

Að sögn Hjörleifs Sveinbjörnssonar, sérfræðings á jarðvársviði Veðurstofunnar, er líklegt að skjálftavirkni síðustu vikna hafi orsakað þá hreyfingu á yfirborði jarðar sem varð til þess að gufan brýst nú upp með þessum hætti.

Ferðir á þessu svæði eru stopular, að sögn Magnúsar. Þegar síðasti hópur var þarna á ferð var skyggni afleitt, og sáu ferðalangar því ekki eftir Grímsfjallinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert