Forsetinn er týndi sonurinn

Ólafur Ragnar Grímsson les upp yfirlýsingu sína á Bessastöðum fyrir …
Ólafur Ragnar Grímsson les upp yfirlýsingu sína á Bessastöðum fyrir viku. mbl.is/Golli

„Framsóknarmenn sjá í forsetanum týnda soninn sem snýr aftur heim,“ segir Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur í samtali við Stöð 2. Guðni telur að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hafi breytt forsetaembættinu til frambúðar.

En forsetinn var um hríð í Framsóknarflokknum áður en hann leitaði á önnur mið í stjórnmálum.

Guðni vísar til Lúkasarguðspjalls (sjá orðrétt fyrir neðan fréttatexta) en dæmisagan er ein af þeim þekktari sem hafðar eru eftir Jesú Krist og þykir til marks um vilja frelsarans til að fyrirgefa syndurum.

„Það er margt mjög áhugavert við stöðuna. Framsóknarmenn sjá í forsetanum týnda soninn sem snýr aftur heim. Vinstri grænir hafa snúið baki við fyrrverandi leiðtoga Alþýðubandalagsins. Og Sjálfstæðisflokkurinn hugsar nú með sér að óvinur óvinar sinna séu nú vinur sinn,“ segir Guðni í viðtalinu sem má nálgast í endursögn á ensku hér. Skal tekið fram að beinar tilvitnanir hér eru lausleg þýðing.

Telur Guðni að með framgöngu sinni hafi forsetinn breytt forsetaembættinu til frambúðar. „Hann eða hún sem vill verða forseti verður að skilja að tími menningarforseta eins og Kristjáns Eldjárns eða Vigdísar Finnbogadóttur er liðinn. Þeir sem sækjast eftir forsetaembættinu verða að vera búnir undir pólitísk átök.“

Guðni telur líkur á að fimmti forseti lýðveldisins muni sækjast eftir fimmta kjörtímabilinu, en því lýkur á næsta ári.

„Ólafur Ragnar Grímsson er metnaðargjarn maður og það kæmi mér ekki á óvart ef hann myndi ákveða að reyna að halda áfram í embættinu.“

Maður sem átti tvo sonu 

Til fróðleiks segir svo í Lúkasarguðspjalli:


„Maður nokkur átti tvo sonu. Sá yngri þeirra sagði við föður sinn: Faðir, lát mig fá þann hluta eignanna sem mér ber. Og faðirinn skipti með þeim eigum sínum. Fáum dögum síðar kom yngri sonurinn eigum sínum í verð og fór burt í fjarlægt land. Þar sóaði hann fé sínu í óhófsömum lifnaði. En er hann hafði öllu eytt varð mikið hungur í því landi og hann tók að líða skort. Fór hann þá og settist upp hjá manni einum í því landi. Sá sendi hann út á lendur sínar að gæta svína og hefði hann feginn viljað seðja sig á drafinu er svínin átu en enginn gaf honum.


En nú kom hann til sjálfs sín og sagði: Hve margir eru daglaunamenn föður míns og hafa gnægð matar en ég ferst hér úr hungri! Nú tek ég mig upp, fer til föður míns og segi við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Lát mig vera sem einn af daglaunamönnum þínum.


Og hann tók sig upp og fór til föður síns. En er hann var enn langt í burtu sá faðir hans hann og kenndi í brjósti um hann, hljóp og féll um háls honum og kyssti hann. En sonurinn sagði við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Þá sagði faðir hans við þjóna sína: Komið fljótt með hina bestu skikkju og færið hann í, dragið hring á hönd hans og skó á fætur honum. Sækið og alikálfinn og slátrið, við skulum eta og gera okkur glaðan dag. Því að þessi sonur minn var dauður og er lifnaður aftur. Hann var týndur og er fundinn. Tóku menn nú að gera sér glaðan dag.


En eldri sonur hans var á akri. Þegar hann kom og nálgaðist húsið heyrði hann hljóðfæraslátt og dans. Hann kallaði á einn piltanna og spurði hvað um væri að vera. Hann svaraði: Bróðir þinn er kominn og faðir þinn hefur slátrað alikálfinum af því að hann heimti hann heilan heim.
Þá reiddist eldri bróðirinn og vildi ekki fara inn.

En faðir hans fór út og bað hann koma. En hann svaraði föður sínum: Nú er ég búinn að þjóna þér öll þessi ár og hef aldrei breytt út af boðum þínum og mér hefur þú aldrei gefið kiðling að ég gæti glatt mig með vinum mínum. En þegar hann kemur, þessi sonur þinn sem hefur sóað eigum þínum með skækjum, þá slátrar þú alikálfinum fyrir hann. Faðirinn sagði þá við hann: Barnið mitt, þú ert alltaf hjá mér og allt mitt er þitt. En nú varð að halda hátíð og fagna því að hann bróðir þinn, sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur og er fundinn.“

Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur
Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur mbl.is/Einar Falur
mbl.is