Sjúklingum tryggðar endurgreiðslur

Frá skurðdeild Landspítalans
Frá skurðdeild Landspítalans mbl.isÞorvaldur Örn Kristmundsson

Sjúklingar sérfræðilækna munu fá greiddan hluta vegna þjónustu sérfræðilækna, jafnvel þó ekki takist samningar milli ríkisins og sérfræðilækna fyrir 1. apríl. Þetta kemur fram í tilkynningu frá velferðarráðuneytinu.

Í tilkynningunni er bent á að samningar milli Sjúkratrygginga Íslands og Læknafélags Reykjavíkur sem fer með samningsumboðið fyrir þorra sjálfstætt starfandi sérgreinalækna, falla að óbreyttu úr gildi 31. mars næstkomandi.

„Velferðarráðuneytið í samvinnu við Sjúkratryggingar hefur undirbúið aðgerðir sem gripið verður til ef ekki semst, með áherslu á að tryggja hag sjúklinga og að þeir verði fyrir sem minnstum óþægindum. Ráðherra mun setja reglugerð um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sérfræðilækna sem eru án samnings við Sjúkratryggingar. Þar verður kveðið á um heimild stofnunarinnar til að endurgreiða sjúkratryggðum hluta útlagðs kostnaðar vegna þjónustu sérgreinalækna samkvæmt gjaldskrá sem Sjúkratryggingar gefa út.

Meðan sérfræðilæknar hækka ekki verðskrá sína umfram gjaldskrá stofnunarinnar verður hlutfall endurgreiðslu til sjúklinga það sama og verið hefur samkvæmt núgildandi samningum,“ segir í tilkynningunni.

Rúmlega 300 sérfræðilæknar starfa að einhverju leyti samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert