Kostnaður vegna Icesave er mikill

Ragnar Árnason.
Ragnar Árnason. Jim Smart

Áætlaður endanlegur kostnaður ríkissjóðs vegna Icesave er sagður vera á bilinu 30-60 milljarðar króna, sem aðeins virðist lág vegna þess hve aðrar fjárhæðir í málinu eru gríðarháar, að sögn Ragnars Árnasonar, hagfræðiprófessors við Háskóla Íslands, á fundi Viðskiptaráðs um Icesave.

Ragnar segir að-ríkiðð ábyrgist 647 milljarða króna greiðslur til Breta og Hollendinga á gengi dagsins í dag. Áætluð endanleg greiðsla ríkisins er sögð verða á bilinu 30-60 milljarðar króna, sem er umtalsverð upphæð og viirðist aðeins lág í samanburði við það hve aðrar fjárhæðir í málinu eru stórar. Segir Ragnar að vextir af þessari fjárhæð myndu duga til að útrýma „sárri fátækt“ á Íslandi að eilífu.

Sýndi Ragnar línurit yfir gengi krónunnar og áhrif þess á heildarfjárhæðina sem ríkið ábyrgist. Meðalfjárhæðin frá því árið 2009 er um 670 milljarðar króna og staðalfrávik nálægt 40 milljörðum. Óvissan er því mikil, að sögn Ragnars.  Aðrir áhættuþættir í samningnum eru endurheimtur úr þrotabúi Landsbankans og það hve hratt er greitt er út. Óvissa er um endanlega stöðu neyðarlaganna. Þá sagði hann að ekki væri hægt að fullyrða að lánshæfiseinkunn ríkissjóðs muni standa í stað eða batna við samþykkt samningsins. Margir telji að hún geti þvert á móti lækkað.

Ragnar einbeitti sér að gengisóvissunni sem í Icesave samkomulaginu felst. Eftir því sem gengi krónunnar veikist því meira muni íslenska ríkið þurfa að greiða til Breta og Hollendinga. Veikist krónan um 18 prósent mun kostnaður ríkisins nema um hundrað milljörðum. Nefndi hann að sögulega hafi gengi krónunnar á köflum veikst mjög mikið, en verið stöðugra á öðrum tímabilum.

Hann segir gjaldeyrishöft vera gríðarlega skaðleg íslensku hagkerfi og því brýnt að afnema þau sem allra fyrst. Ef þau eru afnumin þá myndi því fylgja töluverð gengislækkun með áðurnefndum afleiðingum fyrir endurheimtur og kostnað ríkissjóðs. Því telur hann að verði Icesave samningurinn samþykktur muni tölurverður þrýstingur vera á að viðhalda gjaldeyrishöftum lengur en ella.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert