Norðmenn vilja ráða Íslendinga

Vinnumálastofnun og EURES verða með starfakynningu í Ráðhúsinu á föstudag …
Vinnumálastofnun og EURES verða með starfakynningu í Ráðhúsinu á föstudag og laugardag. Myndin er frá fyrri starfakynningu EURES. mbl.is/Golli

Vinnumálastofnun og EURES, evrópsk vinnumiðlun, efna til evrópskrar starfakynningar í Ráðhúsi Reykjavíkur næstkomandi föstudag og laugardag. Norsk fyrirtæki senda 14 fulltrúa til að ráða íslenska starfsmenn.

Starfakynningin er sú 7. sem er haldin hér. Þar munu Euresráðgjafar frá sjö Evrópulöndum kynna atvinnutækifæri í sínum löndum. Fyrirferðamest verða eru norsku fyrirtækin, fjórtán talsins, sem senda fulltrúa sína hingað til lands í von um að ráða til sín íslenska starfsmenn.

Íslenskum atvinnuleitendum gefst þannig færi á að ræða beint og milliliðalaust við norska atvinnurekendur, samkvæmt tilkynningu Vinnumálastofnunar.

„Finnur þú ekki rétta fólkið heima í Noregi? Lausnin gæti verið að ráða  Íslending. “ Þannig kynndi NAV, systurstofnun Vinnumálastofnunar í Noregi, væntanlega starfakynningu sem haldin verður hér á landi um næstu helgi.

Einnig var talað um Ísland sem fjársjóðskistu fyrir norskt atvinnulíf þar sem hér sé fjöldi fólks sem býr yfir sérfræðikunnáttu, mikilli hæfni og reynslu og sé tilbúið að flytja sig um set. Íslendingar eigi auðvelt með að aðlagast norsku samfélagi vegna þess hve lík menning og tungumál landana eru og einnig sé vinnusiðferði íslendinga almennt mjög gott. Ljóst er að norsk fyrirtæki eru mjög áhugasöm um að ráða til sín Íslendinga um þessar mundir.

„Aldrei hafa jafnmargir aðilar tekið þátt í kynningunni og aldrei hafa væntingarnar verið jafnmiklar. Sem dæmi þá er fyrirtækið Medical Care AS frá Osló hingað komið í leit að 120 hjúkrunarfræðingum , 50 sjúkraliðum og öðru heilbrigðisstarfsfólki.

Einnig er nú í meira mæli en áður verið að leita að mjög sérhæfðum starfsmönnum svo sem veðurfræðingum, jarðfræðingum og sérfræðingum í þróun vatnsaflsvirkjana. Annars er eftirspurn eftir hvers konar iðnmenntuðu og háskólamenntuðu fólki,“ segir í fréttatilkynningu Vinnumálastofnunar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka