Tilboð send fyrir 1. júní

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra.
Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra. mbl.is/GSH

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir að stjórnvöld hafi rekið mjög á eftir bönkum síðustu mánuði varðandi skuldaúrvinnslu fyrirtækja. Sá árangur hafi náðst að þorri þeirra fyrirtækja, sem falla undir samkomulag um skuldaúrvinnslu lítilla og meðalstórra fyrirtækja fái tilboð um endurskipulagningu skulda fyrir 1. júní.  

„Vonandi erum við nú að ná auknum krafti í þessa endurskipulagningu skulda þannig að fyrirtækin fái fast land undir fætur. Það gefur þeim allt aðrar forsendur til að hafa fólk í vinnu og þess vegna ráðast í ný verkefni. Þessi kyrrstaða hefur verið mjög erfið og það skiptir miklu máli að rjúfa hana og finna framtíð fyrir þau fyrirtæki, sem hafa rekstrargrundvöll," sagði Árni Páll á blaðamannafundi í dag.

Efnahags- og viðskiptaráðuneytið birti í dag nákvæmar tölur yfir þau fyrirtæki, sem falla undir samkomulag um skuldaúrvinnslu lítilla og meðalstórra fyrirtækja en  tölurnar komu fram í grófum dráttum í ræðu, sem Árni Páll flutti á Alþingi á fimmtudag.

Um er að ræða fyrirtæki, sem skulda á bilinu 10 milljónir til 1 milljarð en um er að ræða um 90% fyrirtækja landsins. Ekki liggur fyrir hve margir starfa hjá þessum fyrirtækjum en Árni Páll sagði að það væru tugir þúsunda. Þá liggur heldur ekki fyrir hve heildarskuldir fyrirtækjanna eru og hve mikið verður afskrifað.  

Samkvæmt upplýsingum frá fjórum stærstu fjármálafyrirtækjunum er staða mála í heild hjá fyirtækjunum í lok mars þessi:

Fjöldi fyrirtækja: 5977
Fyrirtæki sem ekki eru í greiðsluvanda: 1974
Fyrirtæki í skuldavanda: 4003
Leyst með Beinu brautinni: 973
Leyst án afskrifta: 672
Leyst með afskriftum vegna gengislána: 280
Úrlausn ekki ákveðin, í skoðun: 526
Innheimta/gjaldþrot: 1552

Árni Páll sagði, að fjármálafyrirtæki hafi einnig boðið skuldaaðlögun fyrir þau fyrirtæki, sem skulda meira en milljarð króna og hafi bankarnir sett sér markmið um að ljúka þeirri vinnu að mestu fyrir árslok.

Sagði, að ráðuneytið muni ganga mjög ríkt eftir því að þessi markmið náist en það sé unnið í samvinnu við Fjármálaeftirlitið, sem fylgist með skuldaúrvinnslu bankanna, og Samkeppniseftirlitinu, sem fylgist með því að fyrirtækin séu raunverulega það hóflega skuldsett, að í endurskipulagningunni felist ekki að þau séu áfram undir virkum yfirráðum banka.

„Við erum að vinna áfram að þessu og gera erfiðara og dýrara fyrir bankana að halda á vanskilalánum þannig að það verði aukinn hvati fyrir þá að vinna þetta hratt," sagði Árni Páll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert