Fréttaskýring: Vilja ekki upplýsa um kaupverðið

Flest bendir til að merki Byrs hverfi síðar á þessu …
Flest bendir til að merki Byrs hverfi síðar á þessu ári þegar bankinn rennur inn í Íslandsbanka. mbl.is/Eggert

Hvorki fjármálaráðherra né forstjóri Byrs vilja gefa upp hvert kaupverð Byrs er. Fjármálaráðherra segir að ríkissjóður muni ekki bera frekari útgjöld af Byr, en hann lagði fram 900 milljónir þegar bankinn var stofnaður. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins komu tvö tilboð í Byr: frá Íslandsbanka og MP-banka. Landsbanki og Arion banki skiluðu ekki inn lokatilboðum.

Fjármálaeftirlitið tók Byr yfir í apríl á síðasta ári og skipaði honum slitastjórn, en eiginfjárhlutfall sparisjóðsins hafði þá verið undir mörkum í talsverðan tíma og hann gat ekki staðið við skuldbindingar gagnvart lánardrottnum.

Ákveðið var að endurreisa bankann sem hlutafélag en ekki sparisjóð. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að það hafi verið gert vegna þess að menn vildu leita leiða til að komast hjá því að ríkið þyrfti að endurfjármagna bankann sem hefði þýtt mjög mikil viðbótarútgjöld.

„Síðan tókust samningar um að slitastjórn myndi fjármagna bankann og ríkið þyrfti ekki að leggja meira af mörkum en stofnféð. Það kom síðar í ljós að bankinn myndi þurfa meira fé en upphaflegi endurfjármögnunarsamningurinn gerði ráð fyrir og þá var alveg ljóst að hvorki slitastjórn né ríkið hefðu áhuga á að reiða það fram. Niðurstaðan var því að láta á það reyna hvort hægt væri að selja starfsemina,“ segir Steingrímur.

Í fréttatilkynningu sem gefin var út í gær er ekki upplýst um kaupverðið og Steingrímur vill ekki tjá sig um það. Hann var spurður hvort ríkissjóður myndi bókfæra einhvern hagnað af sölu Byrs. „Nei, það verður ekki. Ég tel að það verði mjög gott ef við fáum í grófum dráttum þá fjármuni til baka sem lagðir voru fram við stofnun bankans.“

Steingrímur gerði ríkisstjórninni grein fyrir málinu á þriðjudaginn. Hann minnti á að Samkeppniseftirlitið, Fjármálaeftirlitið og eftir atvikum ESA ættu eftir að samþykkja samningana. „Ég held að það sé mjög gott að það tókst að klára þetta eins og lagt var upp með,“ sagði Steingrímur.

Tvö tilboð bárust

Ákvörðun um að selja Byr var tekin á kröfuhafafundi í apríl sl. Í júní skiluðu allir bankarnir inn óskuldbindandi tilboðum í bankann. Þeir fengu þá frekari upplýsingar um stöðu hans. Í framhaldinu skiluðu Íslandsbanki og MP-banki sl. föstudag inn tilboðum í bankann og var tilboði Íslandsbanka tekið. Einn heimildarmaður blaðsins úr í einum bankanna sagði að upplýsingar um fjárhagsstöðu Byrs hefðu leitt til þess að viðkomandi banki hefði ákveðið að gera ekki tilboð í sparisjóðinn.

Eins og áður segir hefur kaupverðið ekki verið gefið upp og ekki hefur heldur verið upplýst um raunverulega fjárhagsstöðu Byrs, en bankinn er ekki búinn að skila ársreikningi. Fjármálaeftirlitið er búið að leggja dagsektir á bankann vegna þess. Jón Finnbogason, forstjóri Byrs, segir flókið mál að setja upp ársreikning eftir að banki hafi farið í slitameðferð. Það hafi tekið Landsbankann 13 mánuði að skila fyrsta reikningnum eftir hrun.

Jón fullyrti að eigið fé Byrs væri jákvætt. Gunnar Andersen, forstjóri FME, segir að þó bókfært fé sé jákvætt uppfylli bankinn ekki skilyrði eftirlitsins um eiginfjárhlutfall og hafi ekki gert það í talsverðan tíma.

Byr er í 85% hluta í eigu slitastjórnar Byrs en 15% er í eigu ríkissjóðs. Verðmæti innlána í Byr er um 130 milljarðar og segir Steingrímur J. mikilvægt að þau séu komin í skjól hjá öflugum banka.

Fjármálaeftirlitið á eftir að samþykkja sölu Byrs og m.a. fara yfir hvaða áhrif salan hefur á eiginfjárhlutfall Íslandsbanka. Talið er víst að eiginfjárhlutfallið lækki við kaupin og það endurspeglar m.a. veika fjárhagsstöðu Byrs.

Hefur áhrif á aðra sparisjóði

Guðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sparisjóða, segir áhyggjuefni hver áhrif af sölu Byrs verði fyrir tölvumiðstöðina Teris sem þjónustar sparisjóði og minni fjármálastofnanir. Hann segir óljóst hvernig gangi að aðlaga starfsemina þegar þessi fjórði stærsti banki landsins hverfi úr samstarfinu. Hann minnir þó á að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem fjármálastofnun hverfi úr þessu samstarfi, en bæði Spron og Sparisjóður Mýrasýslu hafa sameinast bönkunum.

Tölvukerfi stóru bankanna gerir ekki ráð fyrir að það þjónusti fleiri en einn viðskiptavin. Minni fjármálastofnanir hafa því með sér þetta samstarf. Stærsti viðskiptavinur Teris er MP-banki.

Guðjón sagði hins vegar að sala Byrs kynni að fela í sér ný tækifæri fyrir sparisjóðina.

Sex útibú

» Byr rekur sex útibú á landinu, í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Akureyri og Reykjanesbæ. Íslandsbanki rekur útibú á öllum þessum stöðum. Ekkert liggur fyrir hvort útibúum verður lokað.
» Um 200 starfsmenn starfa hjá Byr og hafa þeir verið upplýstir um stöðu málsins.
» Það tekur Fjármálaeftirlitið og Samkeppniseftirlitið um tvo mánuði að fara yfir samningana og á meðan bíða starfsmenn í óvissu.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert