Sigkatlasvæðið er varasamt

Miklar sprungur eru í kringum sigkatlana í Mýrdalsjökli.
Miklar sprungur eru í kringum sigkatlana í Mýrdalsjökli. HAG

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra telur ástæðu til að vara við umferð um suðausturhluta Mýrdalsjökuls vegna sprungumyndunar umhverfis sigkatlana sem þar hafa myndast.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Almannavarnadeild ríkislögreglustjórans. Þar segir enn fremur:

„Í gær mánudaginn 18. júlí fóru vísindamenn í þyrluflug með Landhelgisgæslunni yfir Vatnajökul og Mýrdalsjökul.  Markmið flugsins var þríþætt.

Farið var með GPS mæli á Vatnajökul nálægt Hamrinum til að fylgjast nánar með hreyfingum á jöklinum, en í síðasta vísindaflugi kom fram að þar hafði myndast nýtt jarðhitasvæði.

Þá var flogið yfir Mýrdalsjökul til að fylgjast með sigkötlum sem mynduðust í hlaupinu 9. júli síðastliðinn auk þess sem skoðað var hvort breytingar væru á yfirborði jökulsins eftir jarðskjálftann aðfararnótt mánudags, sem mældist 3,8.

Mælitækjunum á Vatnajökli var komið fyrir við Hamarinn og munu þau verða sótt síðar í þessari viku eða byrjun næstu viku.

Lítilsháttar breytingar hafa orðið á sigkötlunum í Mýrdalsjökli frá síðasta vísindaflugi sem farið var 16 júlí síðastliðinn auk þess sem leysingavatn hefur safnast fyrir. Ekki var að sjá neinar breytingar á yfirborði Mýrdalsjökuls eftir jarðskjálftann.  Áfram verður fylgst náið með þessum svæðum.“


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert