Sveitarfélögin hvetji til verkfallsbrota

Kátir krakkar í leikskólanum Kvistaborg í Fossvogi.
Kátir krakkar í leikskólanum Kvistaborg í Fossvogi. Mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég held að það sé alveg ljóst að í þessu bréfi sé verið að hvetja leikskólastjóra til verkfallsbrota," segir Ingibjörg Kristleifsdóttir, formaður Félags stjórnenda í leikskóla. Ólga er meðal leikskólastjórnenda vegna fyrirmæla Sambands íslenskra sveitarfélaga um starfsemi í yfirvofandi verkfalli.  Deildar meiningar eru um hvort leggja þurfi niður alla starfsemi á deildum leikskóla ef deildarstjórinn fer í verkfall. 

Samband íslenskra sveitarfélaga sendi nú síðdegis bréf til sveitarfélaga og leikskólastjórnenda þar sem segir að þeim síðarnefndu beri að sjá til þess að starfsemi leikskóla truflist sem minnst vegna verkfallsins.
Eru þau fyrirmæli gefin að leikskólastjórum beri að „sjá til þess að allar deildir séu starfandi eftir sem áður, með því starfsfólki sem ekki er í verkfalli". Þótt leikskólakennarar leggi niður störf hafi leikskólastjóri eftir sem áður „óskoraðan stjórnunarrétt til að skipuleggja og stýra verkum undirmanna sinna, hann geti flutt þá milli deilda ef þurfa þyki og gert aðrar stjórnunarlegar ráðstafanir."

Við þetta gerir Ingibjörg athugasemdir. „Þetta á vissulega við um eðlilegar kringumstæður. Þá hefur leikskólastjóri óskoraðan stjórnunarrétt, en hann nýtir ekki þann rétt í verkfalli, hvorki til að ganga sjálfur í störf þeirra sem  leggja niður störf né láta aðra gera það."

Ingibjörg segir að Félag stjórnenda í leikskóla hafi farið yfir málið með lögfræðingi sínum og niðurstaða þeirra sé sú að með bréfinu hvetji Samband íslenskra sveitarfélaga til verkfallsbrota. „Tilgangur verkfalls er að knýja fram kaup og kjör, þetta er viðurkennd og lögleg aðferð og hún nær ekki tilgangi sínum ef starfið er skipulagt upp á nýtt og annað fólk sett inn. Leikskólastjórar munu sinna sínum starfsskyldum af heilindum hér eftir sem hingað til, en þeir eiga að okkar mati hvorki að ganga sjálfir í störf leikskólakennara né fá aðra til þess, og þar með eru talin störf deildarstjóra."

Ingibjörg Kristleifsdóttir, formaður Félags stjórnenda leikskóla
Ingibjörg Kristleifsdóttir, formaður Félags stjórnenda leikskóla
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert