Segir ESB-umsóknina tilgangslausa

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra ásamt Štefan Füle, stækkunarstjóra ESB, og Stefáni …
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra ásamt Štefan Füle, stækkunarstjóra ESB, og Stefáni Hauki Jóhannessyni aðalsamningamanni. mbl.is/Utanríkisráðuneytið

„Í ljósi alls þetta virðist umsókn Íslands frekar tilgangslaus. Greint hefur verið frá því að ýmsir háttsettir aðilar innan Evrópusambandsins, sem styðja aðild landsins, hafi nýlega gefið í skyn að ólíklegt sé að umsóknin beri árangur í ljósi sjálfstæðisvilja þjóðarinnar.“

Þannig lýkur grein á vefsíðu bresku samtakanna The Freedom Association eftir Luke Douglas sem birt er í dag. Douglas sinnir rannsóknarvinnu fyrir samtökin sem stofnuð voru árið 1975 og leggja áherslu á hægrisinnaða hugmyndafræði en ýmsir þingmenn breska Íhaldsflokksins eru meðal annarra í forsvari fyrir þau.

Douglas vitnar í síðustu skoðanakannanir hér á landi og segir ljóst að mikill meirihluti Íslendinga hafi ekki hug á að ganga í ESB. Hann kemur ennfremur inn á stefnu íslenskra stjórnmálaflokka til málsins og deilu Íslendinga um makrílveiðar við ESB og Norðmenn og segir ljóst að við aðild að sambandinu myndu yfirráðin yfir íslensku fiskveiðilögsögunni glatast.

„Íslendingar eru með þjóðernissinnuðustu þjóðum í Evrópu og eru gríðarlega stoltir af arfleifð sinni og sjálfstæði. Þeir háðu harða baráttu fyrir því í marga áratugi á 19. og 20. öld,“ segir Douglas og bendir á að sótt hafi verið um aðild að ESB einungis vegna bankahrunsins og efnahagskreppunnar í kjölfarið.

„Forsætisráðherrann, Jóhanna Sigurðardóttir, hefur jafnvel haldið því fram að með upptöku evrunnar væri verið að taka upp öruggari gjaldmiðil. Þrátt fyrir að íslenska krónan sé enn frekar verðlaus í alþjóðlegum skilningi þá hefur evran hrunið í gegnum gólfið undanfarna mánuði,“ segir í greininni.

Greinin á heimasíðu The Freedom Association

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert