Airport Associates í málaferlum við Iceland Express

mbl.is

Airport Associates sagði upp samningi við Iceland Express og Astraeus Airlines vegna þess að ítrekuð veruleg röskun á flugáætlun félagsins hafði valdið Airport Associates fjárhagslegum skaða. Airport Associates er nú í málaferlum við Iceland Express og Astraeus Airlines til að fá það tjón bætt. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Airport Associates.

Í kjölfar fréttaflutnings um gjaldþrot Astraeus Airlines og vandræði í rekstri Iceland Express sér flugafgreiðslufyrirtækið Airport Associates ástæðu til að leiðrétta rangan fréttaflutning, sem rekja má til fjölmiðlafulltrúa Iceland Express, þess efnis að ferðaskrifstofan Iceland Express og Astraeus Airlines hafi sagt upp flugafgreiðslusamningi við Airport Associates vorið 2011.

„Hið rétta er að Airport Associates sagði upp þjónustusamningnum við Iceland Express og Astraeus Airlines vegna þess að ítrekuð veruleg röskun á flugáætlun félagsins hafði valdið Airport Associates fjárhagslegum skaða. Skýrt ákvæði var í samningum fyrirtækjanna á milli að ef Iceland Express / Astraeus Airlines héldi ekki áætlun þyrftu félögin að bæta Airport Associates þann skaða að raunkostnaði. Iceland Express / Astraeus Airlines virtu hins vegar ekki það ákvæði í samningnum, sem leiddi til þess að Airport Associates sagði upp þjónustusamningnum.  Airport Associates er nú í málaferlum við Iceland Express / Astraeus Airlines til að fá það tjón bætt.


Airport Associates er alhliða flugafgreiðslufyrirtæki með öll tilskilin starfsleyfi og hefur verið starfrækt frá árinu 1997. Fyrirtækið þjónustar fjölda virtra og áreiðanlegra flugfélaga á Keflavíkurflugvelli, þar á meðal Delta Airlines, Air Berlin, Bluebird Cargo, German Wings, UPS, Cargolux, Fly Niki og Spanair. Samningar eru auk þess langt komnir við mörg þeirra  flugfélaga sem hyggjast hefja áætlunarflug til Keflavíkur næsta sumar.

Rétt er að taka fram að Airport Associates tengist ekki fyrirtækinu Keflavík Flight Service sem hefur þjónustað Iceland Express frá því síðastliðið vor þegar Airport Associates sagði upp samningi við Iceland Express / Astraeus Airlines og þar til Astraeus Airlines fór í þrot á dögunum,“ segir í fréttatilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert