Gengislánamáli vísað frá

Arion banki tók Sparisjóð Mýrarsýslu yfir.
Arion banki tók Sparisjóð Mýrarsýslu yfir. mbl.is/hag.is

Hæstiréttur hefur vísað frá máli sem Arion banki höfðaði í héraði gegn Birni Þorra Viktorssyni og Karli Georg Sigurbjörnssyni vegna gengisláns sem tekið var hjá Sparisjóði Mýrasýslu árið 2005.

Héraðsdómur Vesturlands hafði áður dæmt Arion banka í vil og áfrýjuðu þeir Björn og Karl til Hæstaréttar. Lánið var í svissneskum frönkum en veitt í íslenskum krónum, í upphafi að jafnvirði 17,6 milljóna króna. Lánið var ekki greitt en á gjalddaga í nóvember 2008 var lántakanda send greiðslukvittun. Samkvæmt héraðsdómnum var kvittunin send fyrir mistök. Arionbanki, sem yfirtók Sparisjóð Mýrasýslu, hélt því fram að lánið væri ógreitt þrátt fyrir að sjálfvirk greiðslukvittun hefði verið send út fyrir mistök. Lántakandi krafðist sýknu.

Héraðsdómur féllst ekki á að greiðslukvittunin hefði verið gild, þar sem ljóst var að um mistök hefði verið að ræða. Taldi héraðsdómur ennfremur að lánið hefði verið veitt í erlendri mynt. Ekki var fallist á að almenn þróun efnahagsmála hefði verið virt sem brostin forsenda, sem haft gæti áhrif á lánið. Gengistrygging lánsins var því staðfest í Héraðsdómi Vesturlands.

Í greinargerð sinni til Hæstaréttar setti Arion banki fram nýja varakröfu sem grundvallaðist á því að ekki yrði fallist á að skuldbindingin hefði verið í svissneskum frönkum, heldur í íslenskum krónum. Bankinn féll síðan frá kröfu sinni um að hinn áfrýjaði dómur yrði staðfestur. Segir í niðurstöðu Hæstaréttar að krafa bankans fyrir réttinum hafi verið reist á málsástæðum sem ekki komu nærri málatilbúnaði hans í héraðsdómsstefnu.

Telur Hæstiréttur hafa skort á að skilyrðum laga um meðferð einkamála væri fullnægt til að Hæstiréttur gæti byggt á þessum nýju málsástæðum við úrlausn málsins. Þær hafi þótt óhjákvæmilega fela í sér að Arion banki hafi í reynd fallið frá öllum málsástæðum varðandi útreikning kröfunnar, sem bankinn byggði á fyrir héraðsdómi. Því hafi engar málsástæður verið tiltækar af hendi bankans til að byggja úrlausn þess á, að því er varðaði ákvörðun á fjárhæð kröfunnar. Þess vegna sé rétt að vísa málinu frá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert