Hlaut Öndvegisstyrk RANNÍS 2012

Verkefnið Framtíðarhönnun þráðlausra neta undir stjórn Magnúsar Más Halldórssonar, prófessors við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík, hlaut í dag Öndvegisstyrk RANNÍS árið 2012. Öndvegisstyrkurinn nemur 15.670.000 krónum.

Fram kemur í tilkynningu að meðumsækjendur Magnúsar við HR hafi verið Pradipta Mitra, Eyjólfur Ingi Ásgeirsson, Henning Arnór Úlfarsson, Sverrir Ólafsson og Ýmir Vigfússon.

„Markmið verkefnisins Framtíðarhönnun þráðlausra neta er að leiða út grundvallareiginleika þráðlausra neta, enda skipa þráðlaus samskipti sífellt stærra hlutverk í nútímasamfélagi. Í verkefninu munu rannsakendur einbeita sér að þeim almennu eiginleikum þráðlausra neta, sem gilda óháð uppsetningu og sértækum aðstæðum. Raunhæf líkön fyrir truflanir verða könnuð sérstaklega, með það að markmiði að brúa bil milli fræðilegra og hagnýttra rannsókna. Þá er verkefninu meðal annars ætlað að svara spurningum er lúta að hönnun þráðlausra neta og stöðugleika neta til langs tíma,“ segir í tilkynningu.

Öndvegisstyrkir RANNÍS eru ætlaðir til umfangsmikilla verkefna sem eru líkleg til að skila íslenskum rannsóknum í fremstu röð á alþjóðavettvangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert