Kröfu um endurupptöku nauðungarsölu hafnað

Héraðsdómur Reykjaness hefur hafnað kröfu Breiðverks ehf. um að heimil verði endurupptaka á nauðungarsölu hjá sýslumanninum í Kópavogi á fasteign í bæjarfélaginu.

Breiðverk, sem höfðaði málið gegn Arion banka, fór fram á að nauðungarsalan yrði endurupptekin á grundvelli bráðabirgðaákvæðis laga um vexti og verðtryggingu um lengri tímafresti. Héraðsdómur hafnaði því hins vegar þar sem ekki voru til staðar heimildir um endurupptöku í lögum um nauðungarsölu og bráðabirgðaákvæðið sneri eingöngu að lengingu tímafresta til endurupptöku dóma, úrskurða og fullnustugerða, að öðrum skilyrðum uppfylltum.

Lagaheimildir skortir

Breiðverk hélt því fram að með setningu bráðabirgðaákvæðisins hefði endurupptökuheimild vegna nauðungarsölu verið lögfest þrátt fyrir að engar endurupptökuheimildir væru til staðar í lögum um nauðungarsölu. Hefði tilgangur löggjafans verið sá að gera stöðu þeirra, sem höfðu tekið lán með ólögmætri gengistryggingu, jafna og gera þeim jafnt undir höfði með því að lögfesta slíkt ákvæði. Breiðverk taldi að ákvæðið væri skýrt og það ætti við um fullnustuaðgerðir, þar á meðal nauðungarsölu.

Arion banki mótmælti þessum rökum og taldi m.a. að endurupptökuheimild í nauðungarsölulögunum væri ekki fyrir hendi og tilgangur löggjafans með setningu bráðabirgðaákvæðis hefði verið sá að lengja þá fresti til að bera undir dómstóla ágreining í þeim málaflokkum þar sem lögbundnar endurupptökuheimildir væru til staðar.

Héraðsdómur tók ekki undir þau rök Breiðverks að með setningu bráðabirgðaákvæðisins hefði löggjafinn verið að bæta við nauðungarsölulögin heimildum til að endurupptaka nauðungarsölu sem þegar væri lokið, umfram það sem komi fram í lögum um vexti og verðtryggingu.

Því skorti lagaheimildir til að verða við kröfum Breiðverks og verði krafa Arion banka um að hafna beri kröfu um heimild til að endurupptaka nauðungarsölu tekin til greina.

Tók erlent myntkörfulán

Fram kemur í dómnum að Breiðverk hafi tekið erlent myntkörfulán að fjárhæð 20.000.000 króna hjá Kaupþingi banka hf. þann 24. apríl 2007. Var lánið  tryggt með veði á 1. veðrétti í fasteign sóknaraðila í Kópavogi. Var fyrsti gjalddagi afborgana 1. febrúar 2008 og fjöldi afborgana 300 talsins.  Var lánið bundið við gengi svissneska frankans að hálfu og japanska jensins að hálfu.

Við fall íslensku bankanna hækkuðu lánin verulega og fóru í vanskil.

Fram kemur að 16. september hafi Arion banki sent Breiðverki greiðsluáskorun þar sem kom fram að skuldabréf var sagt í vanskilum frá 2. júní 2009. Var skuld Breiðverks vegna skuldabréfsins 57 milljónir kr. Sama dag sendi bankinn félaginu greiðsluáskorun vegna láns og voru eftirstöðvar lánsins 7,3 milljónir króna.

Þann 17. nóvember 2010 sendi Arion banki sýslumanninum í Kópavogi beiðni um nauðungarsölu á fasteigninni í Kópavogi, vegna skuldabréfsins. Breiðverki var  send tilkynning um nauðungarsöluna þann 30. nóvember 2010. Var nauðungarsölubeiðnin tekin fyrir hjá sýslumanni þann 19. janúar 2011 að aðilum báðum mættum.  Byrjun uppboðs fór fram 17. mars 2011 að gerðarbeiðanda einum mættum og var málinu frestað til 5. maí 2011.

Bauð 3 milljónir í fasteignina

Þann dag mætti gerðarþoli hjá sýslumanni og mótmælti hann gerðinni þar sem hún væri byggð á ólögmætu gengistryggðu láni. Krafðist hann að gerðin yrði stöðvuð og var bókað að hann myndi skjóta ágreiningi aðila til héraðsdóms. Var því mótmælt af Arion banka og var ákveðið að framhald nauðungarsölunnar yrði 25. maí 2011. Þann dag var fasteignin seld og var hæstbjóðandi Arion banki, sem bauð þrjár milljónir króna í eignina. Hún var metin á 16 milljónir kr. á uppboðsdegi af fasteignasérfræðingi Arion banka. Bankinn segir að fasteignin hafi verið illa farin.

Héraðsdómur Reykjaness segir að ekki verði annað séð af gögnum málsins en að öll skilyrði laga um nauðungarsölu hafi verið til staðar þegar umþrætt nauðungarsala fór fram þann 25. maí 2011.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert