Afsalar sér hlutverki höfuðborgar

Reykjavíkurflugvöllur.
Reykjavíkurflugvöllur. mbl.is/ÞÖK

Framkvæmdaráð Sambands sveitarfélaga á Austurlandi telur að með því að loka norður-suður flugbraut Reykjavíkurflugvallar afsali Reykjavík hlutverki sínu sem höfuðborg allra landsmanna. Þetta kemur fram í ályktun frá framkvæmdaráðinu.

„Ennþá einu sinni dynur yfir landsmenn fréttaflutningur þess efnis að skipulagsyfirvöld Reykjavíkurborgar hyggist láta loka norður-suður braut Reykjavíkurflugvallar árið 2016 eða eftir fjögur ár.
Af því tilefni óskar Samband sveitarfélaga á Austurlandi eftir því að stjórnvöld bregðist nú þegar við til að mæta þessum áformum vegna nauðsynlegrar þjónustu og stjórnsýslu á landsbyggðinni.
Minnt er á að flugmálayfirvöld hafa bent á að flugvöllurinn yrði óstarfhæfur með aðeins einni flugbraut. Jafnframt hefur það komið fram, m.a. á málþingi Háskólans í Reykjavík 19. janúar 2012, að eina raunhæfa lausnin á staðsetningu innanlandsflugsins á suðvestur-horninu, að Reykjavíkurflugvelli frátöldum, sé Keflavíkurflugvöllur.  Verði miðstöð innanlandsflugsins flutt til Keflavíkur mun ferðatími verða svo langur og ferðakostnaður það mikill að óásættanlegt væri að sækja opinbera þjónustu með sama hætti og nú er gert til Reykjavíkur.
Það er því óhjákvæmilegt að opinber þjónusta og stjórnsýsla utan höfuðborgarsvæðisins verði efld og í sumum tilfellum byggð upp frá grunni á landsbyggðinni. Nægir þar að nefna heilbrigðismál, menntamál og ýmsa aðra þjónustu á vegum hins opinbera.
Ljóst er að gangi framangreind áform eftir, mun Reykjavíkurborg þar með afsala sér hlutverki sínu sem höfuðborg allra landsmanna.
Þar sem fjögur ár eru skammur tími til undirbúnings fyrir slíkar breytingar vill SSA fara fram á að stjórnvöld hefjist nú þegar handa við undirbúning þeirra breytinga á stjórnsýslu og opinberri þjónustu sem lokun flugvallarins krefst“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert