„Nú er nóg komið“

Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur mbl.is/Hjörtur

„Ég er mjög ánægður með að Hæstiréttur hefur fellt sakfellinguna úr gildi og ég ætla að vona að ég þurfi ekki að ganga í gegnum þessa málsmeðferð í þriðja sinn. Nú er nóg komið,“ segir Haukur Þór Haraldsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Landsbanka Íslands, en Hæstiréttur hefur ómerkt dóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir honum þar sem héraðsdómur var ekki fjölskipaður í málinu líkt og lög um meðferð sakamála kveða á um.

Haukur Þór var dæmdur í tveggja ára fangelsi óskilorðsbundið í héraði í júnímánuði í fyrra eftir að hafa verið fundinn sekur um fjárdrátt. Var hann ákærður fyrir að hafa hinn 8. október árið 2008 millifært 118 milljónir króna af reikningi félagsins NBI Holdings Ltd. inn á eigin reikning.

Áður hafði Haukur Þór verið sýknaður í héraðsdómi en Hæstiréttur Íslands ómerkti þá niðurstöðu og sendi málið aftur til héraðsdóms til efnislegrar meðferðar.

Haukur Þór segir í samtali við fréttamann Mbl.is að honum sé mjög létt enda hafi hann þurft að mæta fjórum mismunandi saksóknurum á þeim þremur árum sem meðferð málsins hefur tekið. Þá óskar hann engum að þurfa að ganga í gegnum sömu raun og hann hefur þurft að gera.

„Ég ætla að vona að þetta sé endapunkturinn en það er ekki á mínu forræði.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert