Fjölgun tvítyngdra nemenda

Það eru ekki mörg ár síðan til undantekninga heyrði ef nemendur í íslenskum grunnskólum höfðu annað móðurmál en íslensku. Nú er þessu víða öfugt farið. Suðurnes eru ágætt dæmi. Þar eru tíu grunnskólar og er hlutfall nemenda sem hafa annað tungumál en íslensku og fá þess vegna styrk til aukakennslu í íslensku sem annað tungumál frá tæplega 4% og upp í tæplega 15%.

Á þriðja hundrað nemendur

Tæplega 250 nemendur á Suðurnesjum fá styrk úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Tala nemenda sem eru af erlendu bergi brotnir er líklega talsvert hærri og má nefna að í Garði eru þeir 46 en aðeins 12 fá styrk úr sjóðnum. Opinber gögn sýna öra fjölgun erlendra ríkisborgara.

Samkvæmt nýjum tölum á vef Hagstofu Íslands bjuggu 1.890 erlendir ríkisborgarar á Suðurnesjum í árslok 2011. Nær talan yfir Reykjanesbæ, Garð, Sandgerði, Grindavík og Voga. Þeir voru 1.950 í lok fyrsta ársfjórðungs og breytist tala þeirra því lítið innan sveitarfélaganna á árinu. Kann það að vekja athygli í ljósi þess að atvinnuhorfur hafa verið dræmar í landshlutanum. Til að setja þessa tölu í samhengi voru íbúar sveitarfélaganna áætlaðir 21.250 í lok síðasta árs og var hlutfall erlendra ríkisborgara þá tæplega 9%. Til samanburðar er hlutfall erlendra ríkisborgara innan sveitarfélaganna 8,6% í Reykjanesbæ, 7,4% í Grindavík, 13,2% í Sandgerði, 10,8% í Garði og 7% í Vogum.

Pólska er langalgengasta móðurmál þeirra nemenda sem hér eru gerðir að umtalsefni og má nefna að 72 af 160 nemendum af erlendum uppruna í grunnskólum Reykjanesbæjar tala pólsku.

Unnur G. Kristjánsdóttir er kennari í íslensku sem annað mál við Holtaskóla í Reykjanesbæ.

Sumir í hópi bestu nemenda

Hún segir sveitarfélagið styðja ágætlega við bakið á nemendum sem þurfa kennslu í íslensku sem annað tungumál. „Mín skoðun er sú að við fáum ágætan stuðning við kennsluna í skólunum. Ég hef verið með frá 25 og upp í 30 nemendur á síðustu árum og hefur þeim ekki fækkað að neinu ráði eftir hrunið. Þvert á móti hefur þeim t.d. fjölgað í Sandgerði eftir hrunið. Fjölskyldur þeirra eru komnar til að vera. Auðvitað er alltaf hreyfing á fólki en það koma alltaf einhverjir nýir í staðinn.“

– Hvernig sækist námið hjá þeim?

„Það er auðvitað mjög misjafnt, líkt og hjá þeim sem eiga íslensku að móðurmáli. Ef við tökum stærðfræði sem dæmi er oft erfiðara að ná árangri þegar ýmis hugtök skortir í málinu. En mörgum erlendum nemendum gengur mjög vel. Sumir þeirra eru raunar í hópi okkar bestu nemenda. Ég man eftir tveim krökkum sem voru best í íslensku og stærðfræði í sínum bekk þótt íslenskan væri ekki þeirra móðurmál. Það er lítið um meðalnemendur í þessum hópi. Annaðhvort gengur þeim mjög vel eða þurfa aðstoð. Að baki þeim eru jafnvel hámenntaðir foreldrar sem nýta sér að við bjóðum upp á góða kennslu.

Ég man eftir móður sem sagðist hafa flutt til Íslands gagngert til að dóttir hennar fengi tækifæri sem hún fengi aldrei í heimalandinu. Sú stúlka brilleraði í skólanum.“

Nánar verður fjallað um málið í Morgunblaðinu á morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »