Skýrt kall eftir breytingum

Sr. Sigurður Árni Þórðarson
Sr. Sigurður Árni Þórðarson mbl.is

„Það er ótækt að verið sé að segja upp fólki um allt land í starfi kirkjunnar þegar íslenskt þjóðfélag þarfnast þess að kirkjan sé virk og haldi sjó,“ segir Sigurður Árni Þórðarson, annar tveggja frambjóðenda til biskups Íslands. Sigurður Árni hlaut næstflest atkvæði, eða 120, í fyrri umferð kjörs til biskups sem fram fór í gær. Flest atkvæði, 131 talsins, fékk Agnes M. Sigurðardóttir.

Sigurður Árni hefur starfað sem prestur við Neskirkju síðustu ár, en hann hefur einnig starfað í Hallgrímskirkju, sem verkefnisstjóri á Biskupsstofu og var rektor Skálholtsskóla á árunum 1986-1991.

„Undirbúningurinn fyrir biskupskjör hefur verið skemmtilegt og ánægjulegt ferli. Allir þessir átta sem tóku þátt í kjörinu hafa ferðast um landið og átt gott samtal um embættið. Þetta hefur því verið mjög jákvæður uppbyggingartími fyrir kirkjuna,“ segir Sigurður. Hann segist vænta þess að uppbyggingin haldi áfram í næsta fasa, en kjörseðlar verða sendir út hinn 2. apríl fyrir endanlegt kjör á milli Agnesar og Sigurðar Árna.

Aðspurður segist Sigurður ekki halda að eðli kosningabaráttunnar breytist nú þegar frambjóðendur eru orðnir tveir. „Alls ekki. Ég held hins vegar að prófílar okkar beggja muni skerpast.“

Um sínar helstu áherslur segir Sigurður þær meðal annars felast í auknum stuðningi kirkjunnar við barna- og unglingastarf. „Ég mun fjölskyldutengja starfið og beita mér fyrir að takmörkuðum fjármunum kirkjunnar verði varið til þess málaflokks. Tekjur kirkjunnar eru almennt mjög skertar í landinu og það þarf að nýta féð gríðarlega vel.“

Sigurður ætlar sér einnig að sinna starfsfólki kirkjunnar vel nái hann kjöri. „Ég mun beita mér sérstaklega í þágu presta, djákna og ábyrgðarfólks í kirkjunni þannig að það fái þann stuðning sem það þarf í sínum störfum.“ Sigurður segir starfsmenn kirkjunnar vinna frábært starf um allt land.

Ríkið fór illa með trúfélögin

„Ég mun enn fremur hvetja til þess að fólk um allt land vinni að því að leiðrétta sóknargjöld sem hafa verið rangt skráð hjá ríkinu. Ríkið hefur hefur farið illa með trúfélögin í landinu síðustu árin. Ég mun beita mér sérstaklega fyrir þessum þætti.“

Einnig segist Sigurður Árni ætla að leggja áherslu á að sóknarnefndirnar í landinu fái betri samtalsvettvang, og að það verði haldnir landsfundir sóknarnefndafólks.

Aðspurður hvernig megi túlka þessi úrslit segir Sigurður að kjör hans og Agnesar sé skýrt kall eftir breytingum. „Ég fagna því að jafnt hlutfall karla og kvenna meðal frambjóðenda er augljóst merki um nútímahugsun í afstöðu kjörmanna. Vilji er til þess að karlar og konur séu í eðlilegu jafnvægi í stjórnun kirkjunnar.

Þetta er skýrt kall eftir breytingum og kirkjan á að svara því. Kirkjan verður að sækja inn í framtíðina.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert