„Ekki hóflegt veiðileyfagjald“

Gunnar Bragi Sveinsson
Gunnar Bragi Sveinsson mbl.is/Ómar Óskarsson

„Mér sýnist að í þessum frumvörpum sé ekki verið að tala um hóflegt veiðileyfagjald,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson, formaður þingflokks framsóknarmanna, um frumvörp sjávarútvegsráðherra um veiðileyfagjöld, en umræður um málið standa nú yfir á Alþingi.

Gunnar Bragi sagði aðspurður í umræðunum að frumvarpið væri í takt við samþykkt flokksþings framsóknarmanna í sjávarútvegsmálum þegar horft væri á stóru myndina. Það þyrfti hins vegar að fara vel ofan í ýmsa þætti frumvarpsins. Hann sagðist hafa áhyggjur af áhrifum frumvarpsins á rekstur sjávarútvegsfyrirtækjanna og möguleika þeirra til að vaxa. Ljóst væri að veiðileyfagjöldin kæmu misjafnlega niður á einstökum svæðum. Hann minnti á að þessi gjöld væru fyrst og fremst greidd af landsbyggðinni og hefðu þar með áhrif á byggðirnar almennt.

Gunnar Bragi sagði að sér sýndist að sjávarútvegsfyrirtæki sem væru eingöngu í útgerð þyrftu að greiða hærra veiðileyfagjald en fyrirtæki sem væru bæði í útgerð og fiskvinnslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert