Vilja Dýrafjarðargöng framar í röðina

mbl.is/Hjörtur

Hópur áhugafólks um Dýrafjarðargöng hefur hrundið af stað undirskriftasöfnun, þar sem skorað er á Alþingi Íslendinga og ríkisstjórn að færa Dýrafjarðargöng framar á verkefnalista Samgönguáætlunar 2012-2024, svo þau verði næsta jarðgangaframkvæmd. Jafnframt er minnt á fyrirheit ríkisstjórnarinnar um að veita Vestfjörðum forgang við uppbyggingu samfélagslegra innviða, til þess að bjarga byggð og atvinnulífi. Hörður Sigtryggsson á Þingeyri er einn þeirra sem stendur fyrir undirskriftasöfnuninni. Hann segir að undirtektir hafi verið mjög góðar.

Undirskriftalistar liggja nú þegar frammi í verslunum og á þjónustustöðum á Þingeyri, Flateyri, Suðureyri, Ísafirði og í Bolungarvík. Þá eru listar á leiðinni á aðra staði, svo sem á Patreksfirði, Bíldudal og Tálknafirði. Átthagafélög Vestfirðinga hafa sýnt málinu áhuga og verða þeim sendir listar, þannig að brottfluttir Vestfirðingar geti líka tekið þátt í ákallinu um Dýrafjarðargöng. „Nú liggur mikið við. Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér," segir Hörður Sigtryggsson í samtali við skutul.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert