Varar Huang við að fagna of snemma

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég held að erlendir auðkýfingar eigi að fara varlega í að hreykja sér á kostnað íslenskra stjórnmálamanna sem vilja sporna gegn því að vaðið sé á skítugum skónum inn á Ísland,“ segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra í tilefni af yfirlýsingum Huangs Nubos um samninga um leigu á Grímsstöðum á Fjöllum.

Kínverski kaupsýslumaðurinn Huang Nubo var í gær í viðtali við dagblaðið China Daily, þar sem hann sagðist vera nálægt því að ná samningum um leigu á Grímsstöðum. Hann sagði að innanríkisráðuneytið gæti ekki stöðvað málið því það væri ekki lengur á forræði þess.

„Auðjöfurinn Huang Nubo sem er í forsvari fyrir kínversku fjárfestingasamsteypuna, sem vill fá afnotarétt yfir Grímsstöðum á Fjöllum til að reisa þar 20 þúsund fermetra hótelhúsnæði og gera flugvöll á svæðinu til að fljúga með túrista til að njóta einsemdarinnar í Herðubreiðarlindum, hrósar nú happi yfir því að innanríkisráðherra Íslands sé ekki í færum (lengur) til að eyðileggja áform sín,“ segir Ögmundur á heimasíðu sinni.

„Það kemur okkur öllum við þegar eignarhaldi eða afnotarétti á landi okkar er ráðstafað út fyrir landsteinana. Kínverski auðmaðurinn hrósar happi yfir að vera laus við innanríkisráðherrann. En skyldi hann vera laus við íslenska þjóð? Ég held ekki. Almennt vilja Íslendingar ekki verða hráefnanýlenda fyrir erlenda auðmenn, jafnvel þótt stöku sveitarstjórnarmanni glepjist sýn. Þannig var það líka í Mið-Ameríku þegar bananaekrurnar voru seldar.

Ég held að erlendir auðkýfingar eigi að fara varlega í að hreykja sér á kostnað íslenskra stjórnmálamanna sem vilja sporna gegn því að vaðið sé á skítugum skónum inn á Ísland,“ segir Ögmundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert