Dýr framkvæmd en gæti reynst arðbær

Charles Hendry orkumálaráðherra Bretlands
Charles Hendry orkumálaráðherra Bretlands Eggert Jóhannesson

„Sæstrengur yrði fjármagnaður af einkaaðilum,“ sagði Charles Hendry, orkumálaráðherra Bretlands, á ráðstefnu í morgun í Arion banka sem fjallaði um tækifæri íslenskra orkufyrirtækja. Þar sem ljóst er að lagning sæstrengs mun kosta 1,5 - 2 milljarða evra og því vonlítið að búast við því að íslenska ríkið taki neinn verulegan þátt í því verkefni var Hendry spurður að því utan úr sal hver ætti að borga og benti hann þá á einkageirann.

Á ráðstefnunni töluðu, auk ráðherrans, hinn íslenski kollegi hans, Oddný Harðardóttir, Hörður Arnarsson, forstjóri Landsvirkjunar, Guðmundur Ingi Ásmundsson, aðstoðarforstjóri Landsnets, Odd Hákon Oelsæter, fyrrum forstjóri Statnett, Iain Smedley, sérfræðingur í orkumálum hjá Barclays Capital, Robert Lane hjá CMS Cameron McKenna og Guðni Jóhannesson orkumálastjóri.

Í máli Odds Hákonar kom fram að málið væri hugsanlega ekki óraunhæft enda virðist lengsti sæstrengur sem enn hefur verið lagður, sá sem liggur milli Noregs og Hollands, ætla að borga sig á skömmum tíma. Lagning hans kostaði 600 milljón evrur en á aðeins fjórum árum er hann búinn að skila tekjum uppá 301 milljón evra.

Varfærnislega talað

Einkennandi var að menn töluðu varfærnislega á ráðstefnunni um sæstrengshugmyndina enda umframorka á Íslandi í dag varla næg til að tryggja lágmarksstreymi í gegnum sæstreng. Hörður Arnarsson var spurður að því utan úr sal hvaðan sú orka ætti að koma sem ætti að fara í gegnum sæstrenginn. Hann benti á að þetta séu framtíðarvangaveltur því sæstrengur yrði aldrei tilbúinn fyrr en á þriðja áratug þessarar aldar.

Hann sagði jafnframt að Landsvirkjun mæti það svo að hægt væri að tvöfalda orkuframleiðslu hérlendis en samt halda sig innan rammaáætlunar og mæta umhverfisverndarsjónarmiðum.

Fram kom í máli flestra að sæstrengur gæti orðið til þess að gott verð fengist fyrir orkuna en víða er ótti um að ef farið verður í það að flytja orkuna beint út muni uppbygging iðnaðar hér á landi verða að litlu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka