Unnið að heildarhættumati á eldgosum

Eldgosið í Eyjafjallajökli árið 2010.
Eldgosið í Eyjafjallajökli árið 2010. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Vegna umfjöllunar í fjölmiðlum um áhættuskoðun almannavarna vill almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra að eftirfarandi komi fram: Eitt af markmiðum Áhættuskoðunar almannavarna 2011, sem kom út í byrjun árs 2012, var að kortleggja áhættur á landinu og forgangsraða viðbúnaði í almannavarnakerfinu í samráði við almannavarnanefndir landsins og með hliðsjón af rannsóknum vísindamanna. Áhættuskoðunin var unnin í samvinnu við allar almannavarnanefndir landsins og var miðuð við 15 lögregluumdæmi. Kortlagðar voru áhættur í hverju umdæmi og mat lagt á hvort þær ógnuðu lífi, heilsu, umhverfi eða eignum íbúa. 15 skýrslur umdæmanna vegna áhættuskoðunar er hægt að nálgast á vefsíðu almannavarnadeildarinnar auk samantektar um helstu niðurstöður.

Meðal annars var óskað eftir úrlausnum og aðgerðum vegna eldgosa í áhættuskoðuninni. Nú er unnið að greiningu fyrir heildarhættumat á eldgosum fyrir Ísland sem er samstarfsverkefni Veðurstofu Íslands, Vegagerðarinnar, Landgræðslu ríkisins, Jarðvísindastofnunar Háskólans og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, en slíkt mat er forsenda þess að  hægt verði að hefjast handa við gerð viðbragðs- og rýmingaráætlana fyrir eldgos. Í fyrsta forgangi í því mati eru eldstöðvar undir jökli, sprengigos, eldgosahætta í Vestmannaeyjum og á Reykjanesi og þar með mat á hættu sem steðjað getur að höfuðborgarsvæðinu.

Annar viðbúnaður sem settur var í forgang í áhættuskoðuninni og unnið hefur verið að í samráði við heimamenn er viðbragðsáætlun vegna gróðurelda í Skorradal, viðbragðsáætlun og æfing með viðbragðsaðilum á Seyðisfirði vegna ferjuslyss (30. maí), fyrirhuguð sjóslysaæfing við Húsavík 9. júní vegna ferða í hvalaskoðun, auk hópslysaæfinga á Blönduósi og Eskifirði.

Mörg umdæmi óskuðu eftir úrræðum til að vara íbúa og ferðamenn við hættum og hefur nýtt kerfi um viðvörunarboð almannavarna í farsíma verið komið á, sem mun án efa auka öryggi ferðamanna og íbúa á landinu. Nýverið var kerfið prófað og voru send prófunarboð í um 800 farsíma, erlenda og innlenda við Vík í Mýrdal. Á fyrstu mínútunum höfðu yfir 80% farsíma á svæðinu fengið prófunarboðin. Verið er að undirbúa fleiri verkefni sem áhættuskoðunin kallaði eftir.

Vegna aukinna verkefna á sviði almannavarna hefur almannavarnadeildin verið efld úr fimm starfsmönnum í sjö, en nýverið voru þeir Björn Oddsson jarðvísindamaður og Kristján Kristjánsson lögreglumaður ráðnir til starfa. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert