59 áttu ekki fyrir auðlegðarskatti

Árið 2010 dugðu tekjur 59 fjölskyldna ekki fyrir sköttum. Þetta er hluti þess hóps sem greiðir auðlegðarskatt. Tekjur þessa fjölskyldna voru samtals 430 milljónir en þær greiddu 829 milljónir í skatt.

Þetta kemur fram í grein Páls Kolbeins í Tíund, fréttablaði Ríkisskattstjóra.

Árið 2010 greiddu þeir sem þurfa að borga auðlegðarskatt 1,5% skatt sem lagður er á hreinar tekjur einhleypings sem á meira en 90 milljónir. Skatturinn hefur síðan verið hækkaður og tekjumörkin lækkuð. Hann er nú 1,50% og leggst á eign einhleypings yfir 75 milljónum.

Í grein Páls segir að þessar 59 fjölskyldur hafi á árinu 2010 greitt 399 milljónum meira í skatt en þær höfðu í árstekjur. Fjölskyldurnar hafi þurft að selja eignir til að geta greitt skattinn. Í greininni segir að eignir þessara 59 fjölskyldna hafi verið 30,5 milljarðar. Á móti þessum eignum standi skuldir upp á 829 milljónir.

Auðugasta 1% á 503 milljarða

Í greininni segir að auðugasta 1% fjölskyldna í landinu hafi átt um 503 milljarða í árslok 2010. Eignir þessa hóps hafi minnkað um 22,7% frá 2007 til 2010 eða um 147 milljarða. Allar eignir heimilanna minnkuðu hins vegar um 21,4% frá árinu 2007.

Páll segir að eignir efnuðustu fjölskyldna landsins hafi aukist mun meira en annarra á árunum 2001-2007. Árið 2001 áttu auðugustu fjölskyldur landsins (1% fjölskyldna) 10,7% allra eigna. Árið 2007 var þetta hlutfall 14,8%, en í árslok 2010 var það 14,5%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert