Brot gegn drengjum er staðreynd

Ásdís Ásgeirsdóttir

Umræðan á Íslandi um ofbeldi gegn piltum og karlmönnum er á svipuðum slóðum og í málefnum stúlkna og kvenna fyrir tuttugu til þrjátíu árum síðan. Þetta segir doktorsnemi í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands sem gerði rannsókn á kynferðisbrotum gegn drengjum og afleiðingum þeirra til framtíðar.

Rannsókn Sigrúnar Sigurðardóttur náði til sjö íslenskra karlmanna sem urðu fyrir kynferðisofbeldi í æsku. Um var að ræða ítrekað ofbeldi sem hófst þegar þeir voru fjögurra til fimm ára og í einhverjum tilvikum var um fleiri en einn geranda að ræða. Enginn þeirra greindi frá ofbeldinu fyrr en á fullorðinsárum, þegar fátt virtist eftir annað en að svipta sig lífi.

Grein um rannsóknina fékkst á dögunum birt í Scandinavian Journal of Caring Science. Um er að ræða fyrsta hluta doktorsverkefnis Sigrúnar en í þeim næsta ber hún saman karla og konur sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi og í síðasta hlutanum tekur hún fyrir tilfelli einnar konu og líkamleg áhrif ofbeldisins, aðallega þá á heilsufarsleg vandamál hennar.

Gríðarlegar þjáningar og linast ekki

Í sem allra stystu máli má segja að niðurstaða rannsóknarinnar sé sú, að mennirnir sjö hafi þjáðst gríðarlega af völdum ofbeldisins og enn séu engin merki um að þjáningar þeirra linist í bráð. Þeir ræddu meðal annars um skömmina sem fylgdi ofbeldinu, sérstaklega þar sem drengir eigi ekki að verða fyrir kynferðislegu ofbeldi.

„Þetta er algjörlega falið. Umræðan er einhvern veginn þannig,“ segir Sigrún. „Þó er talið að einn af hverjum sex karlmönnum verði fyrir kynferðislegu ofbeldi fyrir átján ára aldur. Hvar eru þessir menn? Þeir eru alla vega ekki að leita sér hjálpar. Þeir eru mikið, held ég, í fangelsum því þeir leiðast oftar en ekki út í afbrot. Einnig eru einhverjir fíklar eða einfaldlega búnir að fremja sjálfsvíg. Við náum ekki til þeirra því þeir segja ekki frá.“

Allir nema einn eru mennirnir feður án forræðis. Þeir sögðu frá því að þeir geti ekki tengst börnum sínum tilfinningalega og eigi erfitt með að snerta þau. Þá hafi fordómar eftir að þeir greindu frá ofbeldinu valdið þeim gríðarlegri vanlíðan, helst vegna þess að menn telja að þeir sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi komi til með að beita ofbeldi sjálfir. Það hafi meðal annars leitt til þess að þeir sögðu ekki fyrr frá ofbeldinu.

Sigrún segir fordómana í samfélaginu skelfilega og erfiðleikana vegna skertra tilfinningalegra tengsla mikla. „Þegar þeir urðu fyrir ofbeldinu kúpluðu þeir sig frá tilfinningum sínum. Sársaukinn var svo mikill að til þess að lifa af aftengdu þeir sig. Afleiðingarnar eru þær að þeir eiga afar erfitt með að tengjast, bæði í samböndum og svo börnum sínum. Þeir ráða ekki við þessa nánd, ná ekki djúpum tengslum. Þeir eiga erfitt með að finna til og almennt sýna tilfinningar því þeir eru búnir að loka á þær.“

Sömu leið þarf að fara og með konur

Um er að ræða samfélagslegt mein sem fengið hefur litla athygli og fáar rannsóknir hafa verið gerðar á, að öllum líkindum engin hér á landi. Sigrún segir að tími sé kominn til að opna umræðuna og fá faglega umræðu um þessi mál - ekki líta á ofbeldi gegn karlmönnum sem eitthvert grín. Hún bendir á að eitt sinn litu menn þannig á, að kynferðislegt ofbeldi gagnvart konum og stúlkum væri ekki stórt vandamál hér á landi. Margir hafi einfaldlega ekki trúað því að þetta gerðist á Íslandi.

„Þá var náttúrlega enginn sem talaði um að drengir eða karlmenn gætu orðið fyrir ofbeldi. En þetta er staðreynd, þetta gerist og karlmenn verða fyrir ofbeldi. Við þurfum að fara sömu leið og með konurnar,“ segir Sigrún.

Tveir mannanna sem Sigrún tók viðtal við voru sendir til skólasálfræðings á sínum tíma. Þeir sögðu þó ekki frá ofbeldinu. „Þar var unnið með óþekktina, að geta ekki hagað sér vel og vera alltaf til vandræða í skólanum. Ég veit ekki hvort þeir voru aldrei spurðir um ofbeldið en það var alla vega ekki unnið með það.“

Hvað þetta atriði varðar segir Sigrún að eiginlega þurfi að ráðast í sérstakt átak þar sem einblínt er á ofbeldi gegn drengjum. Þeir fái oft útrás fyrir vanlíðan sína með ofvirkni eða afbrotum. „Fólk tengir það ekki endilega við ofbeldi. Það þarf því vitundarvakningu, þetta er svo miklu meira vandamál en fólki dettur í hug eða trúir.“

Vitlaust greindir sem ofvirkir

Nokkuð hefur verið fjallað notkun ofvirknilyfja hér á landi en um tíma átti Ísland Evrópumet ef ekki heimsmet í notkun þeirra. Og þó svo dregið hafi eitthvað úr notkuninni er hún enn gríðarlega mikil. Drengir eru í miklum meirihluta og segir Sigrún ýmislegt benda til að einhverjir þeirra séu vitlaust greindir.

„Ég er ekki að segja að ADHD sé ekki til eða að allir drengir séu vitlaust greindir. En það eru mjög svipuð einkenni sem fylgja ADHD og áfallastreituröskun. Ef farið er yfir lista með einkennum má sjá að margir þættir eru eins. Og ef ungum drengjum líður illa inni í sér verða þeir að gera eitthvað við þessa orku. Þeir þurfa að fá útrás.“

Í grein Sigrúnar segir að karlmenn sem urðu fyrir kynferðisofbeldi í æsku séu tíu sinnum líklegri en aðrir til að kljást við geðræn vandamál og greinast með áfallastreituröskun. Þá sé slíkt ofbeldi meginástæða fyrir alvarlegu þunglyndi.

Sigrún segir að kennarar og skólahjúkrunarfræðingar séu í lykilstöðu. Til dæmis séu leikskólakennarar með börnin nánast allan daginn og í miklum tengslum við þau, raunar bæði á leikskóla- og grunnskólastigi. Þá séu hjúkrunarfræðingarnir með þau í eftirliti. „Kennslu fyrir fagfólk er hins vegar mjög ábótavant. Þó svo eitthvað sé komið inn á þetta efni þarf að gera miklu meira. Þetta hef ég bæði heyrt frá nýútskrifuðum kennurum og hjúkrunarfræðingum,“ segir Sigrún.

Fræða þarf drengi betur

Einn mannanna lýsti því að honum hafi verið haldið í fjötrum kvalara síns með andlegu ofbeldi þar til hann var 17 ára. Meðal annars trúði maðurinn orðum hans um að enginn myndi trúa orðum óþekks barns eða síðar afbrotaunglings. Sjálfur væri hann vel metinn fullorðinn maður og orð hans yrðu ekki vefengd.

Sigrún segir að þetta sé afar algengt og sem börn trúi þau því. Þess vegna telji hún unglingsaldurinn góðan til að fá drengi fram, þá átti þeir sig á því að ekkert komi fyrir þá ef þeir segja frá ofbeldinu. En eins og með kennarana þarf að fræða börnin um þessa hluti, að það sé í lagi að segja frá.

Eyþór Árnason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert