Samþykkt að greiða MS-lyf

Gilenya
Gilenya Af vef Sjúkratryggina Íslands

Greiðsluþátttaka í MS-lyfinu Gilenya hefur verið samþykkt af Sjúkratryggingum Íslands en Landspítalinn óskaði eftir flýtimeðferð á afgreiðslu umsóknar um innleiðingu lyfsins hinn 28. júní sl.

Ákveðið hefur verið að Gilenya-meðferð verði veitt þeim MS-sjúklingum sem hafa nú þegar reynt MS-lyfið Tysabri og orðið að hætta notkun þess. Fyrst og fremst er um að ræða þá sem hafa mótefni gegn JC-veiru í blóði og eru í aukinni hættu á að fá PML-heilabólgu samfara áframhaldandi notkun lyfsins.

Einnig hefur verið ákveðið að Gilenya-meðferð verði veitt þeim MS-sjúklingum sem eiga eftir að greinast með alvarlegustu einkenni MS-sjúkdómsins, segir í tilkynningu.

„Þar sem Gilenya er afar vandmeðfarið lyf mun meðferð með því verða undir ströngu eftirliti hjá LSH með sérstakri vöktun sjúklinga, ekki síst í upphafi meðferðar.

Gert er ráð fyrir að ársmeðferð með Gilenya kosti um 3,7 milljónir kr. fyrir hvern sjúkling eftir að afsláttur fékkst frá seljandanum.

Greiðsluþátttaka í lyfinu er samþykkt með því skilyrði að kostnaðurinn haldist áfram sambærilegur eða lægri en vegna eldri meðferða,“ segir í tilkynningu.

Í byrjun munu 5-10 sjúklingar hefja meðferð á Gilenya, en áætlað er að fljótlega muni 20-25 bætast í hópinn. Sjúkratryggingar Íslands og Landspítalinn stefna í framhaldi að heildarendurskoðun og samræmingu klínískra leiðbeininga vegna MS-lyfja.

Gert er ráð fyrir að þeirri endurskoðun verði lokið um næstu áramót. Næsta endurskoðun er síðan áætluð að þremur árum liðnum, nema nýjar upplýsingar komi fram sem gera nauðsynlegt að flýta henni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert