Gagnslaust að hefla veginn að Öskju

Miklir þurrkar setja strik í reikninginn þegar kemur að viðhaldi …
Miklir þurrkar setja strik í reikninginn þegar kemur að viðhaldi á malarvegum landsins. Rax / Ragnar Axelsson

„Vegurinn [að Öskju] er svo þurr að það þýðir ekki að hefla hann. Það er búið vera svo þurrt að það er í raun og veru bara verið að hringla í mölinni. Við erum að vonast eftir rigningu og ef spáin gengur eftir förum við á mánudaginn og heflum veginn,“ segir Pálmi Þorsteinsson, þjónustustjóri Vegagerðarinnar á Norðausturlandi. 

Mbl.is skýrði frá því í gær að tvær rúður brotnuðu í rútu í eigu Askja Tour sem var á ferð á veginum á Öskjuleið. Rútan var full af ferðamönnum, en engan sakaði.

Þvottabrettin myndast fljótt

Pálmi telur líklegustu skýringuna á slysinu vera blöndu af lélegum vegi og óæskilegu aksturslagi. „Það er búið að ganga mikið á peninga sem við höfum til viðhalds á malarvegum. Við reynum að fara þrisvar sinnum yfir sumarið til að hefla veginn. Þegar vegurinn er svona þurr þá myndast þvottabretti eiginlega um leið og við erum búin að hefla hann. Þegar menn fóru í fjallaferðir í gamla daga þá voru þetta svona ævintýraferðir þar sem menn fóru bara og óku mjög rólega og varlega. Í dag eru þessar ferðir voða mikið í kringum ferðamannaþjónustuna og rúturnar þurfa að fylgja áætlun. Bílstjórarnir þurfa því að standast áætlun og keyra því kannski hraðar en vegurinn býður upp á,“ segir Pálmi. 

Veðrið hefur verið vegagerðinni mjög óhagstætt þegar kemur að viðhaldi á malarvegum landsins, en Pálmi segir mjög erfitt að finna efni til að halda veginum á Öskjuleið í góðu ástandi. „Það er varla hægt að kalla þetta veg. Þetta er niðurgrafinn slóði og það vantar allan leir og við eigum mjög erfitt með að binda hann,“ segir Pálmi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert